Öryggi í lyfjanotkun eykst með markvissri ráðgjöf lyfjafræðinga í apótekum

Í Reykjanesapóteki hefur síðustu misseri verið unnið að tilraunaverkefninu Lyfjastoð að norskri fyrirmynd, með stuðningi heilbrigðisráðuneytisins

Fyrir tveimur árum hófst áhugavert verkefni á sviði lyfjamála í Reykjanesapóteki. Verkefnið hlaut heitið Lyfjastoð en það var lyfsöluleyfishafinn í Reykjanesapóteki, Sigríður Pálína Arnardóttir sem átti frumkvæði að því og fékk til þess stuðning heilbrigðisráðuneytisins. Verkefninu sjálfu er lokið en vinnunni er fram haldið í Reykjanesapóteki.

Að norskri fyrirmynd

Sams konar þjónustu og hér um ræðir kynntist Sigríður Pálína í Noregi þegar hún bjó þar og starfaði. Hún segir í samtali við Lyfjastofnun að þar hefðu komið fram vísbendingar í rannsókn um að einungis 30-50% ávísaðra lyfja væru tekin með réttum hætti. Gripið var til aðgerða, m.a. með ráðgjöf í apótekum.

Þjónustan felst í því að lyfjafræðingur fer yfir þau lyf sem viðkomandi einstaklingur er að taka, og honum er leiðbeint með rétta lyfjanotkun út frá því sem læknir hefur gefið fyrirmæli um. Slíkt getur verið hjálplegt, einkum og sér í lagi ef um er að ræða mörg lyf sem taka þarf að jafnaði. Sams konar þjónustu er einnig sinnt í apótekum í Svíþjóð og Danmörku.

Verkefnið Lyfjastoð

Verkefnið hófst sumarið 2022 en hugmyndin var að með slíkri þjónustu mætti bæta lyfjaöryggi hjá þeim sem nota mörg lyf, hafa eftirlit með milliverkunum og aukaverkunum svo eitthvað sé nefnt. Sérstaklega á þetta við þegar um áhættusöm lyf er að ræða, t.d. blóðþynningarlyf. Annað hvort vísaði læknir sjúklingi í stuðning Lyfjastoðar eða einstaklingur óskaði sjálfur eftir þjónustu.

Mikilvægt að taka lyf með réttum hætti

„… lyfin þau lækna og bæta, en þau geta valdið skaða ef þau eru ekki rétt tekin.“

Sigríður Pálína Arnardóttir, lyfsöluleyfishafi í Reykjanesapóteki 

 

Til mikils að vinna

Á vef heilbrigðisráðuneytisins segir í umfjöllun um verkefnið að í Noregi sé áætlað að röng lyfjanotkun valdi árlega kostnaði sem nemur um 74 milljörðum króna. Væri þessi nálgun yfirfærð á Ísland næmi sambærilegur kostnaður um 5 milljörðum króna árlega [upphæð miðuð við verðlag ársins 2022]. Heilsufarslegur ávinningur einstaklinga sé þó ekki hvað síst mikilvægur, en eins og haft er eftir Sigríði Pálínu er talið að í Noregi séu aðeins 30-50% ávísaðra lyfja tekin með réttum hætti. Því má reikna með að mikil þörf sé fyrir faglegan stuðning lyfjafræðinga í apótekum.

Að draga úr skaða vegna ávanalyfja

Í upphafi verkefnisins var byrjað á ráðgjöf vegna lyfja við hjarta- og æðasjúkdómum en síðar bættust margs konar önnur lyf við. Þar á meðal ávana- og fíknilyf, og hefur fólki verið boðið að trappa niður notkunina, en þiggja ella skaðaminnkandi þjónustu. Sigríður Pálína segir enda í nýlegu viðtali við Kastljós, mikinn ávinning af því að fólk með fíkn haldi heilsu og nái bata. Það sé í samræmi við lög um réttindi sjúklinga, og með því megi draga úr þörf fyrir dýrari úrræði í heilbrigðiskerfinu síðar meir.

Verkefninu lokið en starfið heldur áfram

Sigríður Pálína segir tilraunaverkefnið hafa leitt í ljós að með þeirri auknu þjónustu sem um ræðir hafi dregið úr kostnaði heilbrigðiskerfisins. Um þessar mundir eru samtöl lyfjafræðinganna í Reykjanesapóteki orðin um 200 talsins og Sigríður Pálína segir eftirspurn hafa aukist og að þörfin sé mikil. Hún vonast til að þetta verði tekið upp víðar og verði byggt á góðri samvinnu fagstétta; lækna, hjúkrunarfræðinga, lyfjafræðinga og fleiri eftir því sem við á. Það væri í anda lyfjalaga og reglugerðar um lyfsöluleyfi og lyfjabúðir þar sem eru ákvæði sem meðal annars snúa að skyldum lyfsöluleyfishafa til að tryggja lyfjaþjónustu og auka fræðslu um lyfjanotkun.

Síðast uppfært: 13. febrúar 2024
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat