Rafrænir fylgiseðlar – tilraunaverkefni á vegum Evrópuráðsins

Tilraunaverkefni um innleiðingu rafrænna fylgiseðla með lyfjum hefst hér á landi í byrjun næsta árs. Verkefninu er ætlað veita upplýsingar um hvort þessi leið nýtist til að einfalda og bæta hefðbundna upplýsingagjöf um lyf til notenda. Einnig er horft til þess að með rafrænum fylgiseðlum megi auðvelda fámennum þjóðum að standa sameiginlega að útboðum og innkaupum lyfja.

Þetta kemur fram í frétt á vef velferðarráðuneytisins


Byggir á þingsályktun um lyfjastefnu

Verkefnið er byggt á þingsályktun um lyfjastefnu til ársins 2020, en þar segir að stefna beri að því að fylgiseðlar með lyfjum verði rafrænir. Íslensk stjórnvöld hafa einnig mælst til þess að tilskipun Evrópusambandsins verði breytt í þá veru að hafa fylgiseðla með lyfjum aðgengilega fyrir notendur á mismunandi tungumálum með rafrænum hætti.

Einar Magnússon, fulltrúi Íslands í stýrinefnd Evrópuráðsins um lyf og lyfjafræðilega þjónustu, bar tillögu um tilraunaverkefni þessa efnis fram fyrir hönd heilbrigðisráðherra á fundi nefndarinnar í Strasbourg fyrr í þessum mánuði. Tillagan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum og vísað til sérfræðinganefndar Evrópuráðsins um gæða- og öryggisstaðla lyfja og lyfjafræðilega umsjá til nánari umfjöllunar og afgreiðslu.

Síðast uppfært: 26. september 2018
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat