Rannsóknir til að meta árangur lyfja á framvindu langvinnra nýrnasjúkdóma

Nýverið voru birtar í tímaritinu American Journal of Kidney Diseases niðurstöður rannsókna sem styrktar voru af bandarísku sjúklingasamtökunum National Kidney Foundation, og unnar voru í samvinnu við Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) og Lyfjastofnun Evrópu (EMA). Niðurstöður gætu orðið forsenda fyrir þróun nýrra lyfja. Einn rannsakenda er sérfræðingur hjá Lyfjastofnun, Hrefna Guðmundsdóttir lyf- og nýrnalæknir, en hún vann að verkefninu sem fulltrúi EMA.

Fáar lyfjarannsóknir hingað til

Fáar lyfjarannsóknir hafa verið gerðar með það að markmiði að tefja framvindu langvinns nýrnasjúkdóms. Ástæða þessa er m.a. sú að ekki eru til lokaviðmið rannsókna til að meta áhrif lyfja á framvindu sjúkdómsins. Í þeirra stað hefur þurft að meta áhrif lyfja á lifun, og greiningu lokastigsnýrnabilunar. Ofangreindar rannsóknir varpa skýrara ljósi á hvernig nota má lækkun próteins í þvagi og breytingu á áætluðum gaukulsíunarhraða nýrna, sem staðgönguendapunkt í klínískum rannsóknum, svo meta megi árangur lyfja. Þessir endapunktar koma mun fyrr fram en breyting á lifun og lokastigsnýrnabilun og stytta því tíma lyfjarannsókna.

Niðurstöður gætu orðið forsenda fyrir þróun nýrra lyfja

Um er að ræða stærstu yfirlitsrannsóknir þar sem teknar hafa verið saman upplýsingar úr áhorfsrannsóknum (e. observational studies) og slembiröðuðum samanburðarrannsóknum (e. randomized controlled trials) sem fyrir liggja um langvinna nýrnasjúkdóma. Niðurstöðurnar um nýja endapunkta gætu orðið forsenda fyrir þróun nýrra lyfja til að hægja á langvinnum nýrnasjúkdómum, en síðustu tuttugu árin hafa afar fá lyf með slíka virkni komið fram. Hér er því um mikilvægt framlag að ræða.

Ritstjórnargrein í AJKD þar sem sagt er frá notagildi rannsóknanna. 

Síðast uppfært: 11. desember 2019
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat