Sameiginleg yfirlýsing Lyfjastofnunar Evrópu og Sóttvarnarmiðstöðvar Evrópu um stöðu COVID-19 í Evrópu

Full bólusetning er lykillinn að því að veita almenningi vörn gegn alvarlegum einkennum COVID-19 sjúkdómsins, þ.a.m. sjúkdómi af völdum Delta afbrigðisins.

Vegna aukinnar útbreiðslu Delta afbrigðis SARS-CoV-2 veirunnar í ESB/EES löndum hvetja Lyfjastofnun Evrópu (EMA) og evrópska sóttvarnarmiðstöðin (ECDC) alla þá sem hafa ekki verið bólusettir en eru gjaldgengir í bólusetningu, eindregið til þess að hefja og ljúka ráðlögðum bólusetningum vegna COVID-19 tímanlega.

Full bólusetning með einhverju af þeim bóluefnum sem eru samþykkt af ESB/EES veitir mikla vörn gegn alvarlegum sjúkdómi og dauða af völdum SARS-CoV-2, þ.m.t Delta afbrigðinu. Mestu mögulegu verndinni er náð eftir að nægilegur tími (7-14 dagar) hefur liðið frá því að seinni skammturinn var gefinn.

Bólusetning er einnig mikilvæg til að vernda þá sem eru í mestri hættu á alvarlegum sjúkdómi og sjúkrahúsvist, draga úr útbreiðslu veirunnar og koma í veg fyrir að ný afbrigði breiðist út.

Í sumum bólusetningarherferðum getur verið ráðlegt að minnka bilið milli fyrsta og annars skammts innan leyfilegra marka, sérstaklega fyrir fólk sem er í áhættuhópi fyrir alvarlegum einkennum COVID-19 sjúkdómsins og hefur ekki náð að ljúka ráðlögðum bólusetningum.

Sýkingar hjá bólusettu fólki þýða ekki að bóluefni séu ekki að virka

Þó að virkni allra bóluefna gegn COVID-19 sem hafa markaðsleyfi innan ESB/EES sé mjög mikil, þá er ekkert bóluefni með 100% virkni. Þetta þýðir að búast má við takmörkuðum fjölda SARS-CoV-2 sýkinga meðal einstaklinga sem hafa lokið ráðlögðum bólusetningum. Aftur á móti, þegar sýkingar verða hjá fólki, geta bóluefnin, að stærstum hluta, komið í veg fyrir alvarlegan sjúkdóm og dregið mjög úr innlögnum fólks á sjúkrahús vegna COVID-19 sjúkdómsins.

Bólefni gegn COVID-19 sjúkdómnum eru mjög áhrifarík. Því miður munum við halda áfram að sjá sýkingar hjá bólusettu fólki, svo lengi sem veiran heldur áfram að dreifa sér. Þetta þýðir ekki að bóluefnin séu ekki að virka. Bólusett fólk er miklu betur varið gegn alvarlegum einkennum COVID-19 sjúkdómsins en fólk sem er ekki bólusett og við ættum öll að leitast við að vera fullbólusett eins fljótt og kostur er.

Fergus Sweeney, yfirmaður klínískra rannsókna og framleiðslu hjá EMA.

Mæla með að allir gjaldgengir láti bólusetja sig að fullu

EMA og ECDC mæla með fullri COVID-19 bólusetningu fyrir alla gjaldgenga einstaklinga. Þar til fleiri einstaklingar eru bólusettir að fullu og á meðan SARS-CoV-2 er enn að breiðast út, ættu allir ríkisborgarar að fylgja reglum hvers lands fyrir sig og halda áfram að viðhalda persónulegum sóttvörnum, eins og að bera grímur og virða fjarlægðatakmörk. Þetta á jafnt við um bólusetta sem og óbólusetta.

Sjá nánar í frétt EMA.

Síðast uppfært: 10. ágúst 2021
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat