Skipulagsbreytingar hjá Lyfjastofnun 1. febrúar 2024

Vegna aðhaldsaðgerða hefur þurft að stokka spilin upp á nýtt og endurskipuleggja vinnu og verkferla. Allra leiða var leitað til að koma í veg fyrir uppsagnir starfsfólks. Það tókst

Skipulagi hjá Lyfjastofnun verður breytt frá og með 1. febrúar 2024. Því fylgja breytingar í stjórnendahópnum, tvö svið verða lögð niður og fólk færist milli sviða og deilda. Þetta er gert vegna þeirra fjárhagslegu áskorana sem Lyfjastofnun stendur frammi fyrir.

Aðhaldsaðgerðir á liðnu ári

Þegar á síðasta ári var orðið fyrirsjáanlegt að framlag úr ríkissjóði til Lyfjastofnunar drægist saman. Þá þegar var farið í aðhaldsaðgerðir, t.a.m. voru tímabundnir ráðningarsamningar ekki framlengdir, og ekki var ráðið í stað þeirra sem létu af störfum nema brýna nauðsyn bæri til.

Þjónustugjöld 70% af tekjum Lyfjastofnunar

Fjármögnun Lyfjastofnunar er tvíþætt. Annars vegar er um að ræða innheimt gjöld samkvæmt gjaldskrá fyrir veitta þjónustu sem nemur 70% af tekjum stofnunarinnar á ársgrundvelli. Hins vegar framlag úr ríkissjóði.

Framlag úr ríkissjóði dregst saman

Framlagi úr ríkissjóði er ætlað að standa undir öðrum verkþáttum en þeim sem þjónustugjöldin standa undir, og stofnuninni ber að sinna. Þessir liðir, að stærstum hluta eftirlitsgjöld og árgjöld, nema um 30% af tekjunum.

Eftir samþykkt fjárlaga var ljóst að framlag úr ríkissjóði myndi minnka frá fyrra ári og hafði þá dregist saman um tæp 15% á tveimur árum. Af þessu leiðir að framlag ríkisstjóðs árið 2024 verður að líkindum um 100 milljónum lægra en áætlaðar tekjur sem Lyfjastofnun mun skila í sjóðinn á formi eftirlitsgjalda, árgjalda og undanþágulyfja. Um þetta var nýlega var fjallað í frétt á vef stofnunarinnar.

Nýtt skipurit – tvö kjarnasvið

Í ljósi þess að frekari aðhaldsaðgerða væri þörf, var ráðist í að endurmeta vinnu, verkferla og mönnun á hverjum stað, skoðað hvar draga mætti úr þjónustu og hvar hægt væri að færa til verkefni milli starfseininga til að ná fram aukinni skilvirkni. Þetta þýðir verulega uppstokkun á vinnustaðnum og breytingar í stjórnendahópnum.

Tvö kjarnasvið í stað fjögurra

Í nýju skipuriti verða kjarnasvið tvö í stað fjögurra síðustu misseri, og tvö stoðsvið eins og áður. Stjórnendum fækkar.

Verkefni kjarnasviðanna lúta í grófum dráttum annars vegar að því sem sinna þarf áður en lyf fá markaðsleyfi, hins vegar að umsýslu vegna lyfja með markaðsleyfi og/eða á markaði.

Nýtt skipurit Lyfjastofnunar frá 1. febrúar 2024

Stjórnendur

Forstjóri Lyfjastofnunar er Rúna Hauksdóttir Hvannberg, staðgengill hennar Þórhallur Hákonarson, sem jafnframt er sviðsstjóri Fjármála- og stjórnsýslu. Í starfi aðstoðarmanns forstjóra er Jana Rós Reynisdóttir, mannauðsstjóri er Stefán Karl Snorrason.

Valgerður Guðrún Gunnarsdóttir stýrir sviði sem ber heitið Mat og skráning lyfja, og sviðinu Aðgengi og öryggi stýrir Ólöf Þórhallsdóttir. Sviðsstjóri í Stafrænum innviðum er Guðrún Helga Hamar.

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar
Þórhallur Hákonarson, staðgengill forstjóra og sviðsstjóri Fjármála og stjórnsýslu
Jana Rós Reynisdóttir, aðstoðarmaður forstjóra
Stefán Karl Snorrason, mannauðsstjóri
Valgerður G. Gunnarsdóttir, sviðsstjóri Mats og skráningar lyfja
Ólöf Þórhallsdóttir, sviðsstjóri Aðgengis og öryggis
Guðrún Helga Hamar, sviðsstjóri Stafrænna innviða
Síðast uppfært: 30. janúar 2024
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat