Starfsmönnun Lyfjastofnunar fækkaði um 10% árið 2023

Framlag ríkisins til Lyfjastofnunar dregst saman á milli ára

Meðal þess sem Lyfjastofnun gerir til að uppfylla lögbundnar skyldur sínar er að stuðla að umhverfi sem gerir markaðssetningu nauðsynlegra lyfja á Íslandi fýsilega.

Með þetta að leiðarljósi hefur Lyfjastofnun kappkostað að koma til móts við þarfir lyfjafyrirtækja eins og kostur er. Hefur verið horft til þess hvernig megi lækka gjöld í því skyni að minnka viðhalds- og rekstrarkostnað markaðsleyfa lyfja á Íslandi sem og að einfalda ferla. Þannig voru árgjöld lyfja ekki hækkuð í gjaldskrá 2024 til að auðvelda fyrirtækjum að halda lyfjum á íslenska markaðnum.

Hvernig er rekstri Lyfjastofnunar háttað?

Fjármögnun Lyfjastofnunar er tvíþætt. Annars vegar er um að ræða innheimt gjald samkvæmt gjaldskrá fyrir veitta þjónustu sem nemur 70% af tekjum stofnunarinnar á ársgrundvelli og stór hluti er greiddur af erlendum aðilum. Hins vegar fær stofnunin framlag frá ríkissjóði sem á að standa undir öðrum verkþáttum sem stofnuninni ber að sinna og nemur um 30% af tekjunum, stærsti hluti þessa fjármagns eru eftirlitsgjöld og árgjöld.

Árgjöld óbreytt í gjaldskrám 2024

Samkvæmt lyfjalögum setur heilbrigðisráðherra gjaldskrár fyrir veitta þjónustu Lyfjastofnunar. Á árinu 2024 hækka árgjöld lyfja ekki frá síðasta ári en meðaltalshækkun annarra liða gjaldskránna er 8,7% milli ára í samræmi við verðlagsforsendur fjárlaga.

Forsendur útreikninga eftirlitsgjalda óbreyttar áratugum saman

Lyfjaeftirlitsgjald er fast hlutfall, 0,3% af heildar lyfjasölu eða lyfjainnkaupum eftir því hvort á við, og hefur verið óbreytt áratugum saman. Eftirlitsgjaldið er innheimt árlega af framleiðendum lyfja, lyfjaheildsölum og apótekum og byggir álagning gjaldsins á veltu undangengis árs. Lögum samkvæmt innheimtir Lyfjastofnun lyfjaeftirlitsgjaldið og rennur það í ríkissjóð. Gjaldinu er ætlað að standa undir kostnaði við reglulegt eftirlit stofnunarinnar.

Framlag til Lyfjastofnunar úr ríkissjóði dregst saman um tæp 15% á tveimur árum

Framlag úr ríkissjóði til Lyfjastofnunar hefur dregist saman um tæp 15% á síðastliðnum tveimur árum. Þetta setur rekstri Lyfjastofnunar eðli máls samkvæmt þröngar skorður að sinna lögbundnum verkefnum.
Áætlanir gera ráð fyrir að innheimta Lyfjastofnunar fyrir hönd ríkissjóðs í formi eftirlitsgjalda, árgjalda og undanþágulyfja á árinu 2024 verði hærri en framlagið, þ.e. innheimtar verða u.þ.b. 380 milljónir kr. á meðan framlag ríkissjóðs til Lyfjastofnunar verður 280 milljónir kr.

Hagræðingaraðgerðir og færri stöðugildi

Sú staða sem blasir við stofnuninni nú er ekki ný af nálinni, framlög til Lyfjastofnunar samkvæmt fjárlögum sl. tveggja ára hafa dregist umtalsvert saman að raunvirði og ekki fylgt launa og verðlagshækkunum ásamt því að í fjárlögum fyrir 2024 var framlag til stofnunarinnar lækkað um 50 milljónir kr. Af þessum sökum hafa staðið yfir aðhaldsaðgerðir hjá stofnuninni allt síðastliðið ár sem munu halda áfram á þessu ári. Vegur þar þyngst að starfsmannafjölda og stöðugildum hefur verið fækkað. Fjöldi starfsmanna fór úr 83 í janúar 2023 í 75 í janúar 2024 sem er fækkun um tæp 10%.

Ljóst er að áskoranir verða í rekstri Lyfjastofnunar árið 2024 eins og áður segir, en stofnunin fer ekki varhluta af almennum kostnaðarhækkunum frekar en aðrir. Meginhluti reksturs Lyfjastofnunar er fjármagnaður með sjálfsaflafé þannig að notendur greiða fyrir þjónustuna og er hluti þeirra tekna varinn með gjaldskrárhækkunum miðað við verðlagsforsendur fjárlaga. Restin á að greiðast úr ríkissjóði og það framlag hefur dregist saman milli ára, eins og fram hefur komið.

Kappkostað að hagræðingar komi ekki niður á lögbundnum skyldum

Vegna hagræðingarkröfu hefur verið óhjákvæmilegt að breyta þjónustu Lyfjastofnunar. Ýmsar áherslubreytingar hafa verið gerðar, sem dæmi má nefna svörun erinda í síma en símtölum til Lyfjastofnunar hefur fækkað umtalsvert síðastliðin ár og eru nú að meðaltali aðeins 9 á dag. Í stað þess að hringja á opnunartíma er nú hægt að senda inn beiðni um símtal og óska þannig eftir samtali við sérfræðing sem er skilvirk leið fyrir viðskiptavini.

Áfram verður kappkostað að hagræðingaraðgerðir komi ekki niður á lögbundnum skyldum stofnunarinnar.

Síðast uppfært: 26. janúar 2024
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat