Í síðasta mánuði bárust Lyfjastofnun Evrópu (EMA) upplýsingar um að efnið
N-nitrosodimethylamine (NDMA) hefði fundist í nokkrum sykursýkislyfjum sem innihalda metformín. Styrkur NDMA í þessum lyfjum hefur reynst mjög lágur og er ýmist rétt undir eða rétt yfir viðmiðunarmörkum. Lyfin sem um ræðir eru einungis á markaði utan Evrópu.
Engar vísbendingar eru að svo komnu máli, um að NDMA finnist í metformín-lyfjum sem seld eru í Evrópu. Lyfjayfirvöld á Evrópska efnahagssvæðinu, ásamt þeim lyfjafyrirtækjum sem málið varðar, vinna nú að því að láta rannsaka hvort um slíkt geti verið að ræða í metformín-lyfjum sem eru á markaði þar. Upplýsingar um niðurstöður þeirra rannsókna verða birtar þegar þær liggja fyrir.
Metformín-lyf notuð við sykursýki II
Metformín-lyf eru mikið notuð, ýmist ein og sér eða ásamt öðrum lyfjum, til að meðhöndla sykursýki II. Verkun metformíns er þrenns konar: það dregur úr framleiðslu lifrarglúkósu með því að hindra nýmyndun glúkósu og losun glýkógens, eykur insúlínnæmi í vöðvum og bætir upptöku og nýtingu glúkósu í úttaugakerfi og að lokum þá seinkar metformín frásogi glúkósa frá smáþörmum.
Ráðleggingar til sjúklinga
Sjúklingar ættu að halda áfram að taka þau metformín-lyf sem ávísað hefur verið á þá. Engin bráð hætta er á ferð, en á hinn bóginn gæti skapast hættuástand ef sjúklingur hættir að taka lyfið. Metformín er efni sem virkar vel til að stýra magni sykurs í blóðinu.
Ráðleggingar til lækna
Engin ástæða er til að hætta ávísun á metformín-lyf. Lyfjastofnun mun miðla frekari upplýsingum þegar niðurstöður rannsókna liggja fyrir. Mikilvægt er einnig að hvetja sjúklinga til að halda áfram að taka sín lyf.
Um Nítrósamín
Nítrósamín er að finna í nokkrum fæðutegundum og í vatnskerfum í einhverjum tilvikum. Fram hafa komið vísbendingar við rannsóknir á dýrum að nítrósamín geti valdið krabbameini, en sé efnið í lágum styrk er það ekki talið valda skaða.