Tekist á við skort sykursýkis- og þyngdarstjórnunarlyfja

Stýrihópur Lyfjastofnunar Evrópu um lyfjaskort hefur gefið út tilmæli til að takast á við skort sykursýkis- og þyngdarstjórnunarlyfja í flokki GLP-1 viðtakaörva. Meðal slíkra lyfja er sykursýkislyfið Ozempic

Frá því um mitt síðasta ár hefur verið langvarandi skortur á sumum sykursýkis- og þyngdarstjórnunarlyfjum í flokki GLP-1 viðtakaörva, einkum og sér í lagi sykursýkislyfinu Ozempic. Sendingar berast þó nokkuð reglubundið, í takmörkuðu magni reyndar, því lyfjafyrirtækið dreifir sendingum milli landa eftir því sem framleiðslugetan leyfir.

Notkun utan ábendinga á þátt í að valda skorti

Notkun GLP-1 lyfja til þyngdarstjórnunar hjá fólki sem ekki þjáist af offitu eða er með heilsufarsleg vandamál tengd þyngd, hefur reglubundið verið í umfjöllun í fréttum og á samfélagsmiðlum. Þetta hefur leitt til aukinnar eftirspurnar eftir sumum þessara lyfja, sem ásamt öðrum þáttum, svo sem að framleiðslugeta annar ekki eftirspurn, hefur leitt til skorts um alla Evrópu. Þessi staða hefur einnig leitt til ólöglegrar starfsemi og hætta er á fölsuðum lyfjum í umferð.

EMA hefur gripið til ráðstafana

Stýrihópur um lyfjaskort (MSSG) á vegum Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) gaf á dögunum út tilmæli til aðildarstofnana EMA í því skyni að takast á við langvarandi skort þessara lyfja. Þar segir m.a. að leita skuli leiða í samvinnu við markaðsleyfishafa til að stýra þeim birgðum sem í boði eru með sem sanngjörnustum hætti, og forgangsraða í þágu þeirra sem mesta þörf hafa fyrir lyfin. Stýrihópurinn stóð fyrir vinnustofu þann 1. júlí síðastliðinn til að fylgja tilmælunum eftir og kalla fram sjónarmið þeirra sem málið varðar, svo sem lyfjafyrirtækja, fulltrúa sjúklingasamtaka, lækna, lyfjafræðinga í apótekum og sjúkrahúsum, og fulltrúa frá aðildarstofnunum EMA.

Staðan á Íslandi um þessar mundir

Ekki er skortur á lyfjunum hérlendis um þessar mundir, en þær birgðir sem berast reglubundið til landsins eru þó takmarkaðar. Af þeim sökum er því beint til lækna að ávísa lyfjunum eingöngu skv. samþykktum ábendingum.

Aðkoma Lyfjastofnunar

Lyfjastofnun annast ekki innflutning lyfja, en hefur átt í miklum og góðum samskiptum við markaðleyfishafa og dreifingaraðila umræddra lyfja á Íslandi, með það að markmiði að tryggja birgðir til landsins. Stofnunin hefur ekki heimild til að forgangsraða lyfjabirgðum eða takmarka afgreiðslu lyfja en hefur verið í góðri samvinnu innan heilbrigðiskerfisins, meðal annars við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Landspítala, til að auka líkur á að þeir sjúklingar sem þurfa mest á lyfjunum að halda hafi aðgengi að þeim.

Mikilvægt að lyfjaávísun sé samkvæmt ábendingum

Lyfin Ozempic, Rybelsus og Victoza eru með ábendingu við sykursýki af tegund 2. Lyfin Wegovy og Saxenda eru til þyngdarstjórnunar samhliða mataræði og aukinni hreyfingu hjá fólki með offitu, eða þeim sem eru í ofþyngd með fylgisjúkdóma. Um er að ræða lyfseðilsskyld lyf sem ekki skal ávísa til annarra en þeirra sem uppfylla áðurnefnd viðmið. Notkun lyfjanna utan ábendinga eykur skort á þeim. Sykursýki af tegund 2 og offita eru langvinnir sjúkdómar og meðferð með GLP-1 viðtakaörvum er langtímameðferð.

Síðast uppfært: 5. júlí 2024
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat