Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) um lyf fyrir menn (CHMP) hefur mælt með að uppfærða bóluefnið Comirnaty Omicron XBB.1.5 fái markaðsleyfi.
Gegn ýmsum ómíkron-afbrigðum
Uppfærða bóluefnið var þróað í samræmi við ráðleggingar EMA, Sóttvarnastofnunar Evrópu (ECDC) og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Reiknað er með að Comirnaty Omicron XBB.1.5 gagnist gegn ýmsum undirafbrigðum veirunnar, þar sem XBB.1.5 afbrigðið er mjög skylt ýmsum öðrum afbrigðum sem eru á sveimi um þessar mundir.
Frá sex mánaða aldri
Comirnaty Omicron XBB.1.5 er ætlað fólki frá sex mánaða aldri. Fimm ára og eldri fái einn skammt, burtséð frá bólusetningarsögu eða COVID-19 veikindum, en börn frá sex mánaða til fjögurra ára aldurs fái einn til þrjá skammta eftir því hvort þau hafa áður verið bólusett gegn COVID-19 eða fengið sjúkdóminn.
Nú er beðið formlegrar staðfestingar Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins svo hægt verði að taka bóluefnið í notkun.
Á Íslandi ber Sóttvarnalæknir ábyrgð á skipulagningu og samræmingu bólusetningar, s.s. hvaða bóluefni er notað og fyrir hvaða hópa.