Geymsla lyfja og geymsluskilyrði

Virka efnið í lyfjum brotnar niður með tímanum. Þess vegna hafa öll lyf fyrningardagsetningu og mikilvægt er að þau séu geymd við rétt skilyrði. Forðast skal að geyma lyf við of háan hita og í of miklu ljósi.

Allar lyfjaumbúðir eru merktar fyrningardagsetningu og upplýsingum um við hvaða skilyrði á að geyma lyfið. Upplýsingar um geymsluskilyrði eru á umbúðunum og í fylgiseðli. Ef fylgiseðill er týndur má nálgast hann á www.serlyfjaskra.is.

Fram að fyrningardagsetningunni er tryggt að lyfið uppfylli gæðakröfur ef það hefur verið geymt við rétt geymsluskilyrði.

Ráð við geymslu lyfja

Lyf á að geyma í upprunalegum umbúðum.

Lyf sem geyma á í kæli:

  • Veljið lyfjum sem geyma á í kæli öruggan stað í kæliskápnum. Gæta þarf að því að hitastigið sé ekki of lágt og lyfin mega alls ekki frjósa.

Lyf sem geyma má við stofuhita:

  • Forðist að geyma lyf á stöðum þar sem er hátt hitastig og mikið ljós, t.d. ljós undir eða yfir skápum. Forðist að geyma lyf í bíl sem sólin skín á. Ef lyfin eru tekin með á ströndina gætið þess þá að þau séu geymd í skugga.
  • Lítilsháttar frávik frá ráðlögðum geymsluskilyrðum geta verið í lagi um skamman tíma. Að minnsta kosti fyrir töflur og hylki.

Hættan við að nota gömul lyf

Ef lyf sem eru komin fram yfir fyrningardagsetningu eða hafa verið geymd við röng skilyrði eru notuð er hætta á að:

  • lyfið virki ekki sem skyldi
  • viðkomandi upplifi nýjar eða óþekktar aukaverkanir

Af hverju hafa lyf takmarkað geymsluþol?

Lyf innihalda eitt eða fleiri virk efni. Flest virk efni brotna niður með tímanum í önnur efni, svokölluð niðurbrotsefni. Eitt virkt efni getur brotnað niður í mörg efni. Í sumum tilfellum eru þessi efni og virkni þeirra þekkt en í öðrum tilfellum ekki. Þetta þýðir að nokkur lyf brotna niður í niðurbrotsefni sem hafa aðra verkun en virka efnið. Í verstu tilfellunum gætu þessi óþekktu niðurbrotsefni verið eitruð eða orsakað aukaverkanir.

Það eru margir þættir sem hafa áhrif: Sem dæmi má nefna hitastig/hita, raka og ljós. Fljótandi lyf eins og mixtúrur eru viðkvæmari fyrir niðurbroti en þurr lyf eins og töflur og hylki.

Hvernig er geymsluþol lyfja ákvarðað?

Áður en lyfið fær markaðsleyfi er lyfjafyrirtækið búið að framkvæma geymsluþolsrannsóknir á lyfinu. Í þessum rannsóknum eru áhrif mismunandi geymsluskilyrða á lyfið könnuð.

Rannsóknir sem þessar eru framkvæmdar í samræmi við alþjóðlega viðurkennda staðla.

  • Lyfið er m.a. geymt við ólíkt hitastig, til dæmis í kæliskáp (2-8 °C), við stofuhita (25 °C) og við hærra hitastig (40 °C) og með eða án áhrifa ljóss.
  • Geymsluþolið er ákvarðað út frá niðurstöðum þessara rannsókna og ákvörðun er tekin um hvort viðkomandi lyf þurfi að vernda fyrir ljósi eða hita.

Prófun á magni virka efnisins

Lyfjafyrirtækið rannsakar líka hvert magn virka efnisins þarf að vera í lyfinu til þess að það hafi tilætlaða verkun. Minna magn virka efnisins, sem orsakast af niðurbroti, getur haft áhrif á verkun lyfsins þannig að það verki ekki sem skyldi.

Hvernig á að henda gömlum og ónotuðum lyfjum?

Það má hvorki henda gömlum né ónotuðum lyfjum með heimilissorpinu né losa sig við þau í vask eða klósett. Lyfjunum á að skila til eyðingar í apótek. Apótekum á Íslandi ber skylda til að taka við gömlum og ónotuðum lyfjum frá almenningi og koma þeim í örugga eyðingu.

Síðast uppfært: 23. október 2020
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat