Mikilvægt er að hafa í huga að virka efnið í lyfjum brotnar niður með tímanum. Þess vegna hafa öll lyf fyrningardagsetningu. Forðist því að kaupa lyf í meira magni en nauðsynlegt er. Takið til í lyfjaskápnum með reglulegu millibili, skilið afgangs og fyrndum lyfjum til eyðingar í næsta apótek og fyllið á það sem þarf að vera til á heimilinu.
Lyf eru mis varasöm en ávallt skal hafa í huga að röng notkun á lyfjum getur valdið skaða sem í sumum tilfellum er óafturkræfur. Geymið því lyf alltaf þannig að börn hvorki ná til né sjá.
Verkir, hiti og kvef
Til að draga úr verkjum og hita er gott að eiga lausasölulyf sem innihalda parasetamól og/eða íbúprófen. Hvaða lyf eða lyfjaform hentar hverju sinni getur verið misjafnt eftir því hver á í hlut og t.d. farið eftir því hvort önnur lyf séu notuð samtímis, hvort viðkomandi sé barnshafandi, hver aldur notandans er og hvort hann er viðkvæmur eða jafnvel með ofnæmi fyrir ákveðnum lyfjum. Leitið því ávallt ráðlegginga hjá lyfjafræðingi eða lyfjatækni í apóteki og lesið fylgiseðil lyfsins sem er í pakkningu lyfsins og á vefnum lyf.is
Gott getur verið að eiga hitamæli heima við ef einhver í fjölskyldunni fær hita. Framboð hitamæla er fjölbreytt og þeir fást víða, t.d. í raftækjaverslunum og apótekum.
Til er fjölbreytt úrval nefúða og nefdropa sem slá á kláða og hnerra og minnka nefstíflu. Þeir geta komið að góðum notum þegar þörf er á að draga úr einkennum kvefs.
Sáraumbúðir
Nauðsynlegt getur verið að meðhöndla sár með einum eða öðrum hætti þegar óhöpp gerast. Hefðbundinn plástur er þarfaþing á öllum heimilum og hann er til í ýmsum útfærslum. Hælsærisplástur og teygjubindi geta komið sér vel á ferðalögum.
Skordýrabit og sólbruni
Óþægindi á borð við kláða og sársauka í húð geta fylgt skordýrabitum, stungum og sólbruna. Kælikrem eða staðdeyfandi kref sem innihalda lídókaín henta vel við að draga úr kláða og öðrum slíkum óþægindum.
Ofnæmi
Ef fjölskyldumeðlimir eiga það til að fá væg ofnæmisviðbrögð í ákveðnum aðstæðum getur verið gott að eiga ofnæmislyf sem fást í lausasölu apóteka. T.d. gæti það komið í góðar þarfir ef viðkomandi er með vægt ofnæmi fyrir gæludýrum og er á leið í heimsókn til ættingja sem á hund.
Vökvatap
Gott getur verið að eiga vökvauppbót þegar líkaminn tapar miklu magni af vökva, s.s. í tilfelli upp- eða niðurgangs og langvarandi hita. Vökvauppbót er sérstök lausn sem inniheldur kolvetni og sölt og er það besta sem börn og fullorðnir geta drukkið til að koma jafnvægi á vökvamagn líkamans.