03. Hvað veldur lyfjaskorti ?

Skortur á lyfjum er ekki bara bundinn við ísland heldur er vandamálið alþjóðlegt. Ástæður fyrir tímabundnum skorti á tilteknu lyfi geta verið ýmsar.

  1. Skortur á ákveðnum styrkleika eða lyfjaformi lyfs: Ákveðinn styrk eða lyfjaform lyfs getur vantað, en þá er í sumum tilvikum hægt að bregðast við slíku. Ýmist með samheitalyfi, eða með öðrum styrkleika eða lyfjaformi.
  2. Aukin eftirspurn: Skortur á lyfi getur komið upp ef eftirspurn er meiri en markaðsleyfishafi gerði ráð fyrir í áætlunum sínum.
  3. Tafir á sendingum með lyf: Veðurfar getur t.d. haft áhrif á sendingar með lyfjum. Sendingar geta tafist ef samgöngur til landsins raskast.
  4. Vandamál í flutningi: Verði einhver vandkvæði í flutningi lyfja milli staða getur slíkt orsakað skort. Sendingar geta tafist, eða hitastig á leiðinni farið út fyrir þau mörk sem sett eru öryggis vegna.
  5. Vandamál í framleiðsluferli: Við framleiðslu lyfja geta komið upp ýmis vandkvæði, t.d. vöntun á einhverju þeirra efna sem lyfið er samsett úr eða aðstæður á framleiðslustað þykja ekki fullnægjandi. Tíma getur tekið að koma á jafnvægi aftur ef upp koma hnökrar í framleiðslunni.
  6. Fækkun framleiðslustaða: Lyfjaiðnaðurinn er alþjóðlegur og fyrirtæki fækka stundum framleiðslustöðum sem þá getur lýst sér í skorti tiltekinna lyfja um tíma.
  7. Afskráningar: Ísland er örsmár markaður og lyfjafyrirtæki hafa oft minni áhuga á að markaðssetja lyf á slíkum svæðum. Ef salan er lítil eru lyf stundum afskráð. Í slíkum tilvikum hvetur Lyfjastofnun lyfjafyrirtækin hér heima til þess að leita að öðrum framleiðanda.
  8. Breytingar á lyfjalöggjöf eða greiðsluþátttöku: Breytingar á löggjöf eða greiðsluþátttöku lyfja geta haft áhrif í þá veru að eftirspurn eykst og lýsir sér í óvæntum skorti.
Síðast uppfært: 29. október 2020
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat