07. Eru takmarkanir á því magni lyfja sem ég má koma með í farangri til Íslands?

Já. Einstaklingar mega hafa í fórum sínum við komuna til landsins, frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, almenn lyf til eigin nota í magni sem svarar til árs notkunar samkvæmt notkunarfyrirmælum læknis eða markaðsleyfishafa lyfsins. Ef einstaklingur er að koma frá ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins takmarkast heimildin við 100 daga skammt.


Þegar um er að ræða lyf, sem innihalda efni sem finna má í köflum S1 (vefjaaukandi efni) og S2 (peptíð hormón, vaxtarþættir og skyld efni) á bannlista Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunarinnar (WADA; World Anti-Doping Agency) er einstaklingum eingöngu heimilt að flytja til landsins til eigin nota magn sem svarar til 30 daga notkunar samkvæmt notkunarfyrirmælum læknis eða markaðsleyfishafa lyfsins.


Þegar um er að ræða lyf sem innihalda að hluta til efni sem tilgreind eru í fylgiskjali I við reglugerð nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, er heimilt við komuna til landsins að hafa meðferðis lyf í magni sem samsvarar 30 daga skammti nema ef um er að ræða einstakling, með skráð lögheimili á Íslandi. Einstaklingum, með skráð lögheimili á Íslandi, er heimilt við komuna til landsins að hafa meðferðis slík lyf í magni sem samsvarar 7 daga skammti í samræmi við skilgreindan dagskammt, hafi lyfjanna verið aflað erlendis.


Um þetta er fjallað í 1. mgr. 4. gr., 5. og 6. gr. reglugerðar nr. 1277/2022 um innflutning einstaklinga á lyfjum til eigin nota.

(30.6.2023)

Síðast uppfært: 30. júní 2023
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat