Fréttir

Ákvörðun Lyfjastofnunar Evrópu vegna mengunar í sartan-lyfjum

Tveggja ára aðlögunartími til að endurbæta framleiðsluferli

6.2.2019

Í júní á síðasta ári kom í ljós að mengun væri að finna í blóðþrýstingslyfjum sem innihéldu virka efnið valsartan frá framleiðandanum Zhejiang Huahai í Kína. Hluti framleiðslu þessa efnis reyndist innihalda N-Nitrosodimethylamine (NDMA) sem hugsanlega getur valdið krabbameini. Þetta leiddi skömmu síðar til innköllunar ýmissa valsartan lyfja á heimsvísu þar með talið hér á landi.

Frekari rannsóknir leiddu í ljós sams konar mengun í sumum öðrum sartan-lyfjum. Einnig í sams konar lyfjum frá fleiri framleiðendum og sömuleiðis annað mengandi efni í einhverjum tilvikum; N-Nitrosodiethylamine eða NDEA. Slík efni geta undir ákveðnum kringumstæðum komið fram við framleiðslu á sartönum sem hafa í byggingu sinni svokallaðan tetrazole-hring.

Víðtækar rannsóknir á þessum lyfjum eru enn til skoðunar nú í ársbyrjun 2019.

Framleiðendum sartan-lyfja gert að endurskoða framleiðsluferla
Lyfjastofnun Evrópu hefur nú sent þeim fyrirtækjum sem framleiða sartan-lyf fyrirmæli um að endurskoða framleiðsluferla þannig að draga megi úr líkum á að mengandi efni af þessum toga geti myndast. Lyfjafyrirtækin verði að grípa til viðeigandi aðgerða í þessu skyni og láta fara fram nákvæmar mælingar á framleiðslu sinni.

Tveggja ára aðlögunartími
Framleiðendur sartan-lyfja munu fá tveggja ára aðlögunartíma til að breyta framleiðsluferlum. Markmiðið er að ekki finnist mælanleg mengun, en til bráðabirgða hafa verið skilgeind mælanleg mörk NDMA og NDEA í sartan-lyfjum sem gilda á aðlögunartímanum og eru samkvæmt alþjóðlegum viðmiðunum. Þau miðast við að í daglegri notkun fari NDMA ekki yfir 96,0 nanógrömm og NDEA ekki yfir 26,5 nanógrömm (ng). Í töflunni má sjá skilgreind mörk mengunarefna sem hlutfall af hámarksdagskammti viðkomandi lyfja (ppm; e. part per million).

Virkt lyfjaefni  NDMA NDEA
Dagsskammtur að hámarki Að hámarki á dag (ng) Mörk  (ppm) Að hámarki á dag (ng) Mörk   (ppm)
Candesartan (32 mg) 96.0 3.000 26.5 0.820
Irbesartan (300 mg) 96.0 0.320 26.5 0.088
Losartan (150 mg) 96.0 0.640 26.5 0.177
Olmesartan (40 mg) 96.0 2.400 26.5 0.663
Valsartan (320 mg) 96.0 0.300 26.5 0.082


Lyf sem innihalda þessi efni yfir tilgreindum mörkum, eða lyf sem innihalda báðar þessar tegundir nítrósamína af hvaða styrk sem er, verða ekki leyfð á EES-svæðinu. Að aðlögunartímanum loknum verða mörk innihalds bæði NDEA og NDMA enn lægri, eða 0,03 ppm.

Rannsóknum haldið áfram
EMA og lyfjayfirvöld hvers lands munu halda áfram að rannsaka hvort nítrósamín-mengun finnist í lyfjum. Einnig hvort mengun frá öðrum efnum fyrirfinnist, efnum eins og N-nitrosoethylisopropylamine (EIPNA), N-nitrosodiisopropylamine (DIPNA) og N-nitroso-N-methylamino butyric acid (NMBA).

Yfirvöld munu sömuleiðis draga lærdóm af þessu ferli til að betrumbæta þær aðferðir sem nota skal í sambærilegum tilvikum.

Tilmæli EMA vegna NDMA og NDEA hafa verið send Framkvæmdastjórn ESB til löggildingar. Frekari upplýsingar munu birtast fljótlega á vef EMA.

Upplýsingar fyrir sjúklinga

 • Afar lítil hætta er á að nítrósamín-mengun í þeim styrk sem þegar hefur fundist í sartan-lyfjum, geti valdið krabbameini
 • Allt frá því mengunin uppgötvaðist fyrst hafa lyfjayfirvöld á EES-svæðinu unnið markvisst að því að vernda heilsu almennings. Þ.á.m. með því að innkalla sum lyf eða taka þau af markaði að loknum prófunum.
 • EMA vinnur nú að því að koma í veg fyrir mengun af þessum toga við framleiðslu sartan-lyfja
 • Öflugur rannsóknarhópur vinnur að því að tryggja að efni í sartan-lyfjum á markaði séu undir öryggismörkum hvað áhættu varðar
 • ·Ekki hætta að taka sartan-lyf án samráðs við lækni
 • Vakni spurningar um lyf sem þú tekur eða tókst áður, ræddu við lækni eða lyfjafræðing. Þú getur einnig haft samband við Lyfjastofnun, lyfjastofnun@lyfjastofnun.is

Upplýsingar til heilbrigðisstarfsmanna

 • Nítrósamín eru krabbameinsvaldandi í dýrum og geta hugsanlega valdið krabbameini í mönnum
 • Óhreinindi af því tagi geta myndast undir vissum kringumstæðum við framleiðslu sartana sem hafa í byggingu sinni tetrazole-hring.
 • NDMA myndast þegar dímetýlamín (DMA) tengist nítrítum, oftast í súru umhverfi. Svipað á sér stað við myndun NDEA en þá tengist díetýlamín (DEA) nítrítum.
 • Öflugur rannsóknarhópur vinnur að því að tryggja að óhreinindaefni í sartan-lyfjum á markaði séu undir öryggismörkum hvað áhættu varðar
 • Verði þörf á frekari innköllun eða öðrum aðgerðum mun Lyfjastofnun upplýsa um hvernig bregðast skuli við
 • Framleiðendur verða hér eftir að endurskoða framleiðsluferli til að koma í veg fyrir myndun nítrósamína

Meira um lyfin
Endurmatið sem hér um ræðir varðar lyf sem innihalda virku efnin candesartan, irbesartan, losartan, olmesartan og valsartan. Þau tilheyra hópi efna sem sameiginlega eru kölluð sartön.

Þessi sartön hafa í byggingu sinni tetrazole-hring og við ákveðnar aðstæður í framleiðsluferli þeirra geta myndast nítrósamín-óhreinindi, en þar spilar inn í val á leysum, hvarfefnum og öðrum hráefnum við framleiðsluna. Önnur virk efni í þessum flokki, svo sem azilsartan, eprosartan og telmisartan, hafa ekki tetrazole-hring og eru því ekki til skoðunar í þessari rannsókn.

Lyf sem innhalda þessi virku efni eru notuð til að meðhöndla háþrýsting og einnig suma hjarta- og nýrnasjúkdóma. Virkni þeirra byggist á að koma í veg fyrir að hormónið angíótensín II, sem veldur samdrætti í æðum og hækkar blóðþrýsting, nái að verka.

Um endurmatið
Endurmat á valsartanlyfjum hófst fyrir tilstilli Framkvæmdastjórnar ESB þann 5. júlí 2018 samkvæmt tilskipun 2001/83/EC, grein 31. Frá 20. september 2018 náði endurmatið einnig yfir candesartan, irbesartan, losartan og olmesartan.

Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu um lyf fyrir menn (CHMP) annaðist matið og tók undir álit EMA. Sem fyrr segir hefur málinu nú verið vísað til Framkvæmdastjórnar ESB.

Frétt EMA um niðurstöðu vegna mengunar í sartan-lyfjum

Til baka Senda grein