Fréttir

Fyrsta netverslunin með lyf hefur hlotið staðfestingu Lyfjastofnunar

Breytt lyfjalög veita heimild fyrir rekstri netapóteka

7.6.2019

Með breytingu á lyfjalögum á síðasta ári var kveðið á um að heimilt væri að starfrækja netverslun með lyf hér á landi. Þar var ákvæði um að ráðherra skyldi setja reglugerð sem segði nánar til um skilyrði og framkvæmd slíkrar verslunar. Handhafar lyfsöluleyfa hafa samkvæmt hinum breyttu lögum heimild til að stunda netverslun með lyf og ber þeim að tilkynna Lyfjastofnun um þá starfsemi eigi síðar en netverslun hefst. Lyfjastofnun skal birta á vef sínum lista yfir þau apótek sem opnað hafa netverslun með lyf og hafa heimild til þess.

Fyrsta apótekið, Garðs Apótek, hefur nú tilkynnt Lyfjastofnun að sala lyfja gegnum netið verði stunduð og fyrir liggur staðfesting Lyfjastofnunar á því, eins og sjá má í lista yfir netapótek.

Framkvæmd skráningar
Handhafi lyfsöluleyfis sem hyggst stunda netverslun með lyf hérlendis getur tilkynnt slíkt með rafrænum hætti til Lyfjastofnunar í gegnum Mínar síður. Skal þar koma fram heiti, upphafsdagur netsölu og vefslóð netapóteks. Skylt er að hafa á vef apóteksins sameiginlegt kennimerki Evrópusambandsins merkt íslenska fánanum, sem staðfestir þar með að um sé að ræða apótek sem Lyfjastofnun hefur viðurkennt að megi bjóða lyf til kaups á netinu. Þegar smellt er á merkið opnast vefur Lyfjastofnunar og sýnir fyrrnefndan lista yfir þau netapótek sem staðfestingu hafa fengið.

Að kaupa í netapóteki
Mikilvægt er að sannreyna að treysta megi netverslun með lyf. Það er gert með því að leita að sameiginlega kennimerkinu á vef netapóteksins og kanna hvort það tengir yfir í lista yfir netapótek á vef Lyfjastofnunar. Aldrei skal kaupa lyf af netverslun sem birtir ekki sameiginlega kennimerkið.

Apótekum sem tilkynnt hafa til Lyfjastofnunar að netverslun verði stunduð mega selja á slíkum vettvangi lausasölulyf og ávísunarskyld lyf, önnur en eftirritunarskyld lyf. Þau er óheimilt að selja í netapóteki. Að öðru leyti gilda sömu afgreiðslutakmarkanir um lyf sem seld eru í póst- og netverslun og um afgreiðslu annarra lyfja. Lyfsöluleyfishafi ber ábyrgð á því að lyf komist í réttar hendur, t.d. með ábyrgðarbréfi, og að sendingin sé rekjanleg.

Nánari upplýsingar um netverslun með lyf

Upplýsingar fyrir neytendur

Listi yfir netapótek

Til baka Senda grein