Aukaverkanatilkynningum í desember 2020 fjölgaði lítillega frá fyrra mánuði

Samanburður síðustu þriggja ára sýnir þó að aukaverkanatilkynningar eru mun færri árið 2020 en árin tvö þar á undan. Átta tilkynninganna í desember tengjast bólusetningu gegn COVID-19

Tilkynningar um aukaverkanir lyfja sem bárust Lyfjastofnun í desember 2020 voru nokkru fleiri en mánuðinn á undan. Tilkynningar í desember eru sömuleiðis fleiri en meðaltal ársins, en að jafnaði bárust 12 tilkynningar á mánuði árið 2020. Aukaverkanatilkynningar árið 2020 eru þó mun færri en árin tvö á undan.

Aukaverkanatilkynningar í desember voru 19 talsins, þar af voru átta tilkynningar vegna bólusetningar gegn COVID-19 með Comirnaty bóluefninu. Fjórar af tilkynningum desembermánaðar voru um alvarlega aukaverkun, en engin þeirra tengdist Comirnaty.

Í því sambandi má minna á að Lyfjastofnun Evrópu hefur hvatt sérstaklega til þess að aukaverkanir lyfja sem gefin hafa verið við COVID-19 sjúkdómnum verði tilkynntar, sem og aukaverkanir af lyfjanotkun vegna annarra sjúkdóma meðan á COVID-19 veikindum stendur.

Sex þeirra tilkynninga sem bárust Lyfjastofnun í desember voru frá læknum, sex frá öðrum heilbrigðisstarfsmönnum, fjórar frá lyfjafræðingum, og þrjár frá notandendum eða aðstandendum þeirra.

Samanburður áranna 2018-2020 sýnir að mun færri tilkynningar um aukaverkanir lyfja bárust árið 2020 en fyrri ár. Árið 2018 voru tilkynningarnar 180, árið 2019 berast 230 tilkynningar, en 140 árið 2020. Álag vegna COVID-19 farsóttarinnar kann að hafa haft þau áhrif að ekki bárust fleiri aukaverkanatilkynningar á síðasta ári.

Aukaverkanatilkynningar veita mikilvægar upplýsingar um öryggi lyfja þegar þau eru komin í almenna notkun. Því er rétt að hvetja almenning jafnt sem heilbrigðisstarfsfólk til að senda upplýsingar um slík tilvik til Lyfjastofnunar, og undirstrika að allir geta tilkynnt grun um aukaverkun lyfs. Hægt er að tilkynna rafrænt í gegnum gátt á vef Lyfjastofnunar.

Síðast uppfært: 21. janúar 2021
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat