Birting sjúklingakorta í Sérlyfjaskrá

Lyfjastofnun hvetur markaðsleyfishafa til að óska eftir birtingu sjúklingakorta í Sérlyfjaskrá. Það myndi auka aðgengi heilbrigðisstarfsmanna að efninu og um leið öryggi sjúklinga

Markaðsleyfi sumra lyfja kveður á um að lyfinu skuli fylgja svokallað fræðsluefni. Markmið fræðsluefnis er að auka öryggi lyfsins og yfirleitt er lögð áhersla á ákveðin atriði sem talin er þörf á að vekja sérstaka athygli á. Fræðsluefni er oft ætlað heilbrigðisstarfsmönnum, en einnig sjúklingum eða umönnunaraðilum. Sjúklingakort eru hluti af fræðsluefni ákveðinna lyfja og væri því ákjósanlegt að þau væru aðgengileg á þar til gerðu svæði í Sérlyfjaskrá.

Birting fræðsluefnis í Sérlyfjaskrá

Lyfjastofnun hefur um nokkurra ára skeið boðið upp á og óskað eftir að markaðsleyfishafar birti fræðsluefni í Sérlyfjaskrá. Fræðsluefnið er þá birt á síðu lyfsins, í sér kafla sem er staðsettur undir lyfjatextum þess. Markmiðið með birtingu fræðsluefnis í Sérlyfjaskrá er að auka aðgengi að fræðsluefni, heilbrigðisstarfsmenn og sjúklingar geti þannig nálgast allar upplýsingar um ákveðið lyf á einum og sama staðnum. Góð raun hefur gefist af því að birta efnið á þennan hátt.

Sjúklingakort

Í sumum tilfellum felst fræðsluefni í að svokölluðum sjúklingakortum, einnig stundum kölluð öryggiskort eða áminningarkort, sé dreift til þeirra sem nota ákveðin lyf. Sjúklingakort eru almennt ætluð til að hafa ávallt á sér og þau á að hanna og prenta til að þjóna þeim tilgangi, t.d. þannig að þau passi í veski. Markmið sjúklingakorta er meðal annars að geta á auðveldan hátt upplýst heilbrigðisstarfsmenn um lyfjameðferðina, eða til að minna sjúklinga á sérstaklega mikilvægar upplýsingar.

Á síðustu árum hefur færst í vöxt að sjúklingakort fylgi lyfjapakkningum, og jafnvel að texti sá sem prentaður er á sjúklingakortin sé hluti af samþykktum lyfjatextum.

Lyfjastofnun hvetur markaðsleyfishafa eindregið til að óska eftir birtingu sjúklingakorta í Sérlyfjaskrá.

Jafnvel þó að sjúklingakortin séu hluti af samþykktum lyfjatextum eru þau einnig fræðsluefni. Með sérstakri birtingu í Sérlyfjaskrá er aðgengi að fræðsluefninu aukið sem gerir heilbrigðisstarfsmönnum hægara um vik að vita af tilvist sjúklingakortanna og kynna sér efni þeirra og eykur þar með öryggi sjúklinga.

Síðast uppfært: 6. október 2023
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat