COVID-19 bóluefni AstraZeneca enn talið öruggt

Lyfjastofnun Evrópu hefur skoðað tilkynningar um blóðtappamyndun og frekara mat stendur yfir. Stofnunin telur ávinning af notkun bóluefnisins meiri en áhættuna sem henni fylgir, rétt eins og áður, og að óhætt sé að nota bóluefnið meðan matið fer fram.

Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) um eftirlit með ávinningi og áhættu lyfja (PRAC) hefur til skoðunar tilfelli blóðtappamyndunar í kjölfar bólusetningar með bóluefni AstraZeneca gegn COVID-19.

Sem stendur er ekkert sem bendir til þess að notkun bóluefnis AstraZeneca hafi valdið myndun blóðtappa hjá bólusettum einstaklingum. Mat PRAC er að ávinningur af notkun bóluefnisins sé meiri en áhættan sem henni fylgir, rétt eins og áður. Óhætt sé að nota bóluefnið meðan frekari skoðun standi yfir.

Fjöldi tilkynninga um blóðtappamyndun er ekki umfram það sem búast má við í venjulegu árferði hjá þeim fjölda sem hefur verið bólusettur. Í gær, þann 10. mars, höfðu 30 tilfelli blóðtappamyndunar verið tilkynnt í kjölfar bólusetningar u.þ.b. 5 milljón manns á EES svæðinu með bóluefni AstraZeneca.

Á Íslandi hafa þrjár tilkynningar borist um myndun blóðtappa í kjölfar bólusetningar gegn COVID-19. Er um að ræða eina tilkynningu fyrir hvert bóluefni sem notað hefur verið hérlendis (Comirnaty frá Pfizer/BioNTech, Covid-19 Vaccine Moderna og COVID-19 Vaccine AstraZeneca). Rétt er að árétta að ekki þarf að vera um orsakasamband að ræða milli bólusetningar og tilkynntra tilvika. Slíkt er metið í hverju tilfelli fyrir sig. Nánar um tilkynningar vegna gruns um aukaverkun á vef okkar.

Upplýsingum um mat EMA verður miðlað eftir því sem þær verða tiltækar.

Frétt EMA um málið

Síðast uppfært: 11. mars 2021
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat