Eftirlit með lyfjaauglýsingum á Læknadögum

Læknadagar 2025 fóru fram í Hörpu dagana 20.-24. janúar síðastliðinn

Á ráðstefnunni voru lyfjafyrirtæki með aðstöðu til að kynna og auglýsa lyf á svæði sem afmarkað var fyrir þátttakendur eins og verið hefur. Samkvæmt lyfjalögum er eitt af hlutverkum Lyfjastofnunar að hafa eftirlit með lyfjaauglýsingum og sinnti stofnunin eftirliti á Læknadögum að venju, bæði varðandi lyfjaauglýsingar og afhendingu lyfjasýnishorna.

Reglur um lyfjaauglýsingar

Lyfjalög tilgreina að lyfjaauglýsing sé hvers konar auglýsinga- eða kynningarstarfsemi, skrifleg eða munnleg, myndir, afhending lyfjasýnishorna, lyfjakynningar og fundir í þeim tilgangi að stuðla að ávísun, afhendingu, sölu eða notkun lyfja. Lyfjaauglýsing skal ávallt vera sett fram með hlutlægum hætti og veita fullnægjandi upplýsingar um rétta notkun lyfs. Lyfjaauglýsing má ekki vera villandi og má í henni ekki gera of mikið úr eða gefa misvísandi upplýsingar um eiginleika lyfs auk þess sem upplýsingar í lyfjaauglýsingu skulu ætíð vera í samræmi við samþykkta samantekt á eiginleikum lyfs.

Lyfseðilsskyld lyf

Samkvæmt reglugerð um lyfjaauglýsingar er heimilt að auglýsa og kynna ávísunarskyld lyf fyrir þeim sem hafa rétt til að ávísa eða afhenda lyf svo sem læknum, tannlæknum, dýralæknum, hjúkrunarfræðingum, ljósmæðrum, lyfjafræðingum og lyfjatæknum. Innihald og birtingarmáti lyfjaauglýsingar sem beint er til þeirra skal vera með þeim hætti að ekki sé líklegt að hún komi almenningi fyrir sjónir.

Í reglugerðinni kemur einnig fram að fulltrúar markaðsleyfishafa sem kynna lyf í eigin persónu skulu fá viðeigandi þjálfun hjá markaðsleyfishafa sem þeir starfa fyrir og hafa nægilega faglega þekkingu til að geta veitt eins ítarlegar upplýsingar og unnt er um lyfið sem þeir kynna. Afhending merktra lyfjasýnishorna að skriflegri beiðni ávísandi heilbrigðisstarfsmanns er heimil enda sé um að ræða nýskráð lyf sem verið er að kynna og ekki telst ávana- eða fíknilyf skv. reglugerð um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni og lyfið sé í minnstu markaðssettu pakkningu auk frekari skilyrða.

Nánari upplýsingar um lyfjaauglýsingar er m.a. að finna í leiðbeiningum á vef Lyfjastofnunar.

Tilkynning aukaverkana lyfja

Í tengslum við erindi á Læknadögum skapaðist umræða varðandi aukaverkanatilkynningar og er Lyfjastofnun með eftirfylgni með þeim málum í kjölfarið. Þar að auki var fjallað um skyldur heilbrigðisstarfsfólks um tilkynningu aukaverkana í sérstakri frétt þess efnis á vef stofnunarinnar.

Síðast uppfært: 5. febrúar 2025
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat