Lyfið Esmya hefur frá því snemma árs verið til skoðunar hjá PRAC, sérfræðinefnd Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) um eftirlit með ávinningi og áhættu lyfja. Í maí síðastliðnum komst nefndin að þeirri niðurstöðu að konur með skerta lifrarstarfsemi skuli ekki nota lyfið, en þær sem talið er að geti nýtt sér það verði undir sérstöku eftirliti. Athugun PRAC fór fram vegna aukaverkanatilkynninga um alvarlegar lifrarskemmdir, en Esmya er ætlað til meðferðar á meðalsvæsnum upp í svæsin einkenni vöðvaæxlis í legi hjá fulltíða konum á barneignaraldri.
Nú hefur sérfræðinganefnd EMA um lyf fyrir menn (CHMP) tekið undir varnaðarorð PRAC, að ítrustu varkárni skuli gætt og grannt verði fylgst með lifrarstarfsemi þeirra sem nota lyfið.
Ályktanir sérfræðinefndanna um Esmya verða nú sendar til Framkvæmdastjórnar ESB sem mun taka bindandi ákvörðun um notkun lyfsins.