Kaupið aðeins lyf af viðurkenndum netapótekum

Lyfjastofnun Evrópu (EMA) beinir því til almennings að kaupa ekki lyf í gegnum netið nema af þeim netapótekum sem hlotið hafa viðurkenningu lyfjayfirvalda í viðkomandi landi.

Óprúttnir aðilar gætu reynt að nýta sér núverandi ástand vegna heimsfaraldurs COVID-19 með því að bjóða upp á varning sem sagður er lækna eða koma í veg fyrir sjúkdóminn. Svo gæti virst að í sumum tilvikum sé verið að selja lögleg lyf, en miklar líkur eru á að svo sé ekki.

Fölsuð lyf gjarnan boðin fram sem lögleg

Fölsuð lyf eru gjarnan boðin til sölu undir því yfirskyni að um lögleg lyf sé að ræða. Þau gætu mögulega innihaldið virka efnið sem á að vera í umræddu lyfi en ekki í réttu magni, og hugsanlega er virka efnið alls ekki til staðar. Fölsuð lyf gætu sömuleiðis innihaldið efni sem eru beinlínis skaðleg.

Sameiginlegt kennimerki tryggir að um löglega netverslun er að ræða

Öll apótek á Evrópska efnahagssvæðinu, sem heimild hafa til að stunda netverslun með lyf, verða að birta svokallað sameiginlegt kennimerki á vef sínum. Svona lítur íslenska útgáfa kennimerkisins út:

Kennimerki-netapoteka

Þegar smellt er á merkið opnast síða á vef Lyfjastofnunar og má þar sjá hvaða apótek hafa leyfi til netsölu. Þar með hefur sá sem kaupir lyf tryggingu fyrir að netverslunin sé lögleg.

Nánari leiðbeiningar um lyfjakaup gegnum netið er sömuleiðis að finna á vef Lyfjastofnunar.

Frétt EMA um málið.

Síðast uppfært: 13. nóvember 2020
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat