Þegar hefur verið sagt frá lyfinu Evusheld, sem er forvörn gegn COVID-19 en þó ekki bóluefni. Sérfræðinganefndin mælti með að lyfið fái markaðsleyfi.
Mælt var með skilyrtu markaðsleyfi fyrir lyfið Carvykti (ciltacabtagene autoleucel) sem er ný genameðferð, dreifa fyrir innrennslisvökva. Virka efnið er genabreytt T-fruma sem herjar á mótefnavakann BCMA en hann er fyrst og fremst að finna á yfirborði frumna í illkynja mergæxli.
Umsóknir bárust fyrir það sem kallað er samheitalyf með viðbótargögnum (e. hybrid application). Í þeirri skilgreiningu felst að annars vegar er byggt á klínískum rannsóknum lyfs sem þegar hefur hlotið markaðsleyfi, hins vegar á nýjum gögnum sem varða annars konar eiginleika eða viðbót nýja lyfsins. -Tvær slíkar umsóknir bárust. Annars vegar fyrir lyfið Camcevi (leuprorelin), sem er meðferð við hormónaháðu krabbameini í blöðruhálskirtli. Hins vegar fyrir Zolsketil pegylated liposomal (doxorubicin), en það er meðferð við nokkrum tegundum krabbameina; brjósta- og eggjastokkakrabbameini, ágengu mergæxli, og Kaposi-stoðvefskrabbameini, en það síðastnefnda er tengt alnæmi. -Mælt var með markaðsleyfi fyrir bæði lyfin.
Sérfræðinganefndin mælti einnig með markaðsleyfi fyrir samheitalyfið Amifampridine SERB (amifampridine). Það er meðferð við sjálfsofnæmissjúkdómi, heilkenni vöðvaslenskreppu eða Lambert-Eaton heilkenni.
Viðbótarábendingar
Sérfræðinganefndin mælti með viðbótarábendingum fyrir lyfin Cabometyx, Jakavi, Keytruda (tvær viðbótarábendingar), Kymriah og Polivy.