Nýtt frá CHMP – Nóvember 2022

Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) um lyf fyrir men (CHMP) hélt fund 7.-10. nóvember sl. Mælt var með að fjögur ný lyf fengju markaðsleyfi.

Nefndin mælti með að COVID-19 bóluefnið VidPrevtyn Beta fengi markaðsleyfi í Evrópu. Lyfið er ætlað sem örvunarskammtur fyrir fullorðna sem þegar hafa fengið a.m.k. eina bólusetningu gegn COVID-19. VidPrevtyn Beta er sjöunda bóluefnið sem mælt er með í Evrópu gegn sjúkdóminum.

Skömmu eftir fundinn veitti Framkvæmdastjórn ESB VidPrevtyn Beta markaðsleyfi og má lesa um það í frétt á vef Lyfjastofnunar.

Líftæknilyfshliðstæðan Kauliv hlaut jákvæða umsögn CHMP sem meðferð við beinþynningu.

Mælt var með að samheitalyfið Pirfenidone Viatris fengi markaðsleyfi í Evrópu. Lyfið vinnur gegn sjálfvakinni lungnatrefjun en hún veldur langvinnri og stigversnandi örvefjamyndun í lungum sem þyngir öndun.

Samheitalyfið Sugammadex Amomed hlaut einnig meðmæli nefndarinnar. Sugammadex er ætlað að upphefja taugavöðvablokkun af völdum rókúróníums hjá fullorðnum og börnum eða vekúróníums hjá fullorðnum. Rókúróníum og vekúróníum eru vöðvaslakandi lyf sem stundum eru notuð í aðgerðum og er Sugammadex gefið til að flýta fyrir endurheimt vöðvaspennu eftir notkun þeirra í aðgerð.

Að auki mælti CHMP með því að ábendingum væri bætt við lyfjatexta ellefu lyfja sem þegar hafa markaðsleyfi í Evrópu: Ceprotin, Comirnaty, DuoPlavin, Dupixent, Enhertu, Eylea, Imfinzi, Iscover, Lynparza, Plavix og Xofluza.

Nefndin lagði til að mælt verði með notkun COVID-19 bóluefnisins Comirnaty Original/Omicron BA.4-5 fyrir börn á aldrinum 5-11 ára til viðbótar við þá aldurshópa sem þegar hafa verið samþykktir.

Að lokum tók CHMP undir meðmæli PRAC um áhættuminnkandi aðgerðir vegna notkunar á lyfjum sem hemla Janus tengda kínasa.

Síðast uppfært: 24. nóvember 2022
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat