Sérfræðinefnd EMA um eftirlit með ávinningi og áhættu lyfja (PRAC) kom saman dagana 11.-14. júní. Á fundunum var áfram rætt um öryggi vegna lyfja sem áður hafa verið til umfjöllunar hjá nefndinni.
Þar á meðal voru sýklalyf í flokkum kínólóna og flúorókínólóna, en efnt var til fundar fyrir almenning vegna notkunar slíkra lyfja í samræmi við það sem ákveðið var í mars sl. Þetta var til að geta metið enn frekar sjaldgæfar en viðvarandi aukaverkanir af notkun slíkra lyfja sem tengjast vöðvum, liðum og taugakerfinu, og hvaða frekari viðmið væri hægt að setja til að tryggja að umrædd sýklalyf yrðu notuð af ýtrustu varfærni. Niðurstöðurnar verða nýttar í endanlegu mati PRAC á áhættu við notkun þessara lyfja.
Áfram var fjallað um hættu fylgjandi því að lyfið Xofigo sé notað samhliða Zytiga og prednisone/prednisolon. En eins og fram hefur komið hafa rannsóknir sýnt aukna tíðni dauðsfalla og beinbrota hjá þeim sjúklingum með krabbamein í blöðruhálskirtli sem hafa verið meðhöndlaðir með þessum þessum lyfjum saman. Á fundinum nú í júní var settur saman listi yfir frekari upplýsingar sem kalla þarf eftir frá framleiðanda (markaðsleyfishafa).
Þá var haldið áfram umræðu um ávinning og áhættu vegna notkunar metótrexats, lyfs sem notað er við ýmsum krabbameinum sem og sumum gigtarsjúkdómum.