Neyðarhópur Lyfjastofnunar Evrópu, Emergency Task Force (ETF), hefur hafið mat á gögnum um notkun lyfsins Sabizabulins sem meðferð við COVID-19 sjúkdómnum.
Öll tiltæk gögn verða metin, þar á meðal rannsóknargögn um sjúklinga á sjúkrahúsi með miðlungs til alvarleg einkenni COVID-19, sem áttu á hættu að lenda í lífsógnandi öndunarerfiðleikum. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að meðferð með Sabizabúlíni geti dregið úr dánartíðni, borið saman við notkun lyfleysu.
Unnið samkvæmt nýlegri reglugerð
Framleiðandi Sabizabulins hefur ekki sótt formlega um markaðsleyfi, en matsferli lyfsins er það fyrsta sem unnið er samkvæmt nýlegri reglugerð um hlutverk EMA á neyðartímum; beiðni um matið kom frá Þýskalandi. Hugsunin er sú að matið auðveldi aðildarlöndum að taka ákvörðun um notkun lyfsins áður en það hefur hlotið markaðsleyfi.
Neyðarhópur EMA sem annast matið, sendir álit sitt að því loknu til sérfræðinganefndar um lyf fyrir menn (CHMP), sem síðan skilar formlegri afstöðu EMA.
Virkni lyfsins
Virkni Sabizabulins felst í að bindast að nokkru leyti örpíplum frumna og trufla virkni þeirra, en örpíplur eru hluti af stoðkerfi frumnanna. Örpíplurnar eru þær einingar sem gera SARS-CoV-2 veirunni sem veldur COVID-19, kleift að ferðast innan frumna líkamans, þar á meðal inn í kjarnann þar sem hún fjölgar sér. Því er reiknað með að tenging Sabizabulins við örpíplurnar trufli lífsferil veirunnar og takmarki möguleika hennar á að fjölga sér.
Einnig er talið líklegt að Sabizabulin hemji bólgusvar líkamans sem stundum fylgir COVID-19, og getur leitt til lífsógnandi öndunarerfiðleika.