Skipuleg örvunarbólusetning gegn COVID-19 hafin

Íbúum höfuðborgarsvæðisins 60 ára og eldri verður boðið upp á fjórða skammtinn af bóluefni gegn COVID-19 í Laugardalshöll frá og með 27. september. Samhliða verður einnig hægt að fá bólusetningu gegn inflúensu

Sóttvarnalæknir gaf í byrjun mánaðarins út leiðbeiningar um notkun COVID-19 bóluefna á þessu hausti. Aðaláherslan er lögð á örvunarbólusetningu 60 ára og eldri, og annarra sem auknar líkur eru á að veikist alvarlega af COVID-19.

Skipulegar örvunarbólusetningar fyrir 60 ára og eldri hefjast hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Heilbrigðisstofnun Norðurlands í dag, 27. september, og einnig um svipað leyti annars staðar á landinu.

Víða verður samhliða boðið upp á bólusetningu gegn inflúensu.

Örvun með uppfærðu COVID-19 bóluefni

Eins og kunnugt er hefur veiran sem veldur COVID-19 stökkbreyst frá því faraldurinn hófst í árslok 2019. Því hafa nú verið þróaðar uppfærðar útgáfur fyrri bóluefna með það að markmiði að ráða betur við nýrri afbrigði veirunnar. Lyfjastofnun Evrópu (EMA) samþykkti fyrr í þessum mánuði uppfærða útgáfu tveggja bóluefna sem hafa verið í notkun hérlendis, Comirnaty frá BioNTech/Pfizer, og Spikevax frá Moderna.

Uppfærðu bóluefnin innihalda tvígilda ónæmisvaka, annan sem kallar fram ónæmissvar gegn upprunalegu veirunni, hinn gegn ómíkron BA.1 afbrigðinu. -Sóttvarnalæknir hefur mælt með notkun Comirnaty Original/Omicron BA.1 til að nota sem örvunarskammt hérlendis nú í haust.

Fylgiseðill uppfærðs COVID-19 bóluefnis sem notað er við örvunarbólusetningu.

Nánari upplýsingar um uppfærð COVID-19 bóluefni.

Inflúensubóluefnið

Eins og nýlega kom fram í frétt á vef Lyfjastofnunar gerði sóttvarnalæknir samning við dreifingaraðilann Vistor um kaup á 90.000 skömmtum af Vaxigrip Tetra til nota veturinn 2022-2023. Vaxigrip Tetra er annað tveggja inflúensubóluefna sem eru á markaði á Íslandi.

Síðast uppfært: 29. september 2022
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat