Starfshópur til að sporna við mis- og ofnotkun geð- og verkjalyfja

Í byrjun febrúar skipaði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra starfshóp til þess að stemma stigu við mis- og ofnotkun geð- og verkjalyfja. Birgir Jakobsson landlæknir og verðandi aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra er formaður starfshópsins. (Sjá frétt Lyfjastofnunar frá 12.2.2018).

Starfshópurinn hefur haldið þrjá fundi, fengið til sín gesti og kallað eftir upplýsingum um lyfjanotkun á þessu sviði m.a. frá Embætti landlæknis og Lyfjastofnun.

Í september sl. greindi Lyfjastofnun frá því að stofnunin hygðist boða aðgerðir til að hamla gegn misnotkun eftirritunarskyldra lyfja. Misnotkun sterkra verkjalyfja og annarra ávana- og fíknilyfja er þekkt vandamál. Ákveðnar vísbendingar, t.d. sölutölur tiltekinna lyfja í þessum flokki á heildsölustigi, gefa til kynna að vandinn fari mögulega vaxandi. Gögn sem Lyfjastofnun hefur áður birt sýna að notkun lyfja sem innihalda ópíóíða eykst hér á landi á sama tíma og hún dregst saman á öðrum Norðurlöndum. Þá liggja einnig fyrir dæmi um dauðsföll í kjölfar lyfjaeitrana vegna notkunar slíkra lyfja.

Heildarkostnaður vegna lyfseðilsskyldra verkjalyfja á árinu 2016 var 845 milljónir kr. Af þessari upphæð fóru um 80% í lyf sem innihalda ópíóíða. 

 

Opiodar

Heimild: NOWBASE, norræni lyfjatölfræðigrunnurinn.

Heildarkostnaður vegna þunglyndislyfja var um 700 milljónir kr. og  heildarkostnaður vegna svefnlyfja og slævandi lyfja var 260 milljónir kr. Heildarkostnaður vegna ADHD lyfja (lyf við athyglisbresti með ofvirkni) var um 970 milljónir kr. Samanlagt nemur þetta um 10% af öllum lyfjakostnaði landsmanna.

 

Af lyfjum sem verka á taugakerfið (ATC-flokkur N) eru m.a. verkjalyf, svefnlyf, þunglyndislyf og lyf við athyglisbresti með ofvirkni. Af OECD löndum nota Íslendingar mest af þessum lyfjum.

Lyf_med_virkni_a_taugakerfidHeimild: OECD stat tölfræðigrunnurinn.

 

Ef Íslendingar myndu nota lyf sem verka á taugakerfið í sama mæli og gert er í OECD löndum myndu sparast um 2.600 milljónir króna á ári en 1.600 milljónir ef miðað við meðaltal Norðurlanda. 

 

Vert er að taka fram að hér er eingöngu borinn saman kostnaður vegna lyfjanotkunar. Önnur niðurgreidd tengd heilbrigðisþjónusta eins og t.d. sálfræðiþjónusta o.fl. er með ólíkum hætti í löndunum.

 

 

Síðast uppfært: 12. mars 2018
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat