Áður en lagt er af stað í ferðalag er mikilvægt að taka til nauðsynleg lyf fyrir þá fjölskyldumeðlimi sem á þurfa að halda. Gæta þess a magnið sé nægilegt þann tíma sem fríið varir, og síðar að lyfin þurfa að vera geymd við aðstæður sem rýra ekki gæði þeirra og virkni. Flest lyf í töfluformi þola nokkra heita sumardaga, en sum fljótandi lyf og krem geta verið viðkvæm bæði fyrir hita og kulda. Um þetta hefur áður verið fjallað á vef Lyfjastofnunar
Almennt talað er það svo að virka efnið í lyfjum brotnar niður með tímanum og þess vegna hafa þau fyrningardagsetningu og ráðleggingar um geymsluskilyrði. Um þetta má lesa í fylgiseðlinum sem fylgir pakkningunni, eða fletta lyfinu upp á lyf.is þar sem finna má fylgiseðla allra lyfja sem eru á markaði á Íslandi.
Lausasölulyf við sumartengdu ofnæmi og skordýrabitum
Sjaldgæft er að skordýr á Íslandi beri með sér hættulega sjúkdóma. Erlendis er áhættan hins vegar meiri og því gagnlegt að kynna sér vel viðbrögð við skordýrabitum áður en lagt er upp í langferð. Ýmis lyf sem draga úr einkennum ofnæmis og/eða skordýrabits, fást í apótekum án ávísunar læknis. Yfirlit yfir lyf af þessu tagi er að finna á vef Lyfjastofnunar.
Áfengi og lyf
Héraðshátíðir og rúmur frítími gera ef til vill að verkum að fólk neytir meira af áfengi á sumrin en alla jafna. Séu lyf tekin að staðaldri er mikilvægt að kynna sér hvort áfengisneysla samhliða lyfjanotkuninni geti verið óheppileg, eða jafnvel varasöm. Áfengisnotkun samhliða notkun lyfja gæti til dæmis dregið úr eða aukið áhrif lyfsins. Í fylgiseðlinum kemur fram hvort þörf er á að sniðganga áfengi á meðan á notkun lyfsins stendur. Fyrri umfjöllun um þessi mál má finna á vef Lyfjastofnunar.
Lækningatæki með í ferðalagið?
Já, líklega taka flestir lækningatæki með í ferðalagið. Plástur er nefnilega flokkaður sem lækningatæki, ásamt margvíslegum misstórum og ólíkum hlutum öðrum. Einnig getur þurft lækningatæki við notkun lyfs, svo sem nálar fyrir stungulyf og innöndunartæki fyrir astmalyf. Blóðsykurmælar og hitamælar flokkast líka sem lækningatæki. Á leiðinni í sumarfríið? Mundu að taka þessa hluti með.
Fleiri góð ráð fyrir ferðalagið
