Þetta er gott að hafa meðferðis á ferðalaginu í sumar:
Lyf allra fjölskyldumeðlima
Munið að pakka með lyfjum allra í fjölskyldunni í nægilegu magni fyrir þann tíma sem fríið varir, miserfitt getur verið að nálgast lyf eftir því hvert er farið. Mikilvægt er að geyma lyfin við réttar aðstæður. Forðist til dæmis að geyma lyfin í bíl lengi þar sem beint sólarljós og hiti getur komið niður á gæðum lyfsins.
Plástur og hælsærisplástur
Eins gaman og það er að fá sér nýja skó er fátt óþægilegra en hælsæri. Takið með hælsærisplástur svo að hægt sé að endast lengur á göngu.
Verkjastillandi og hitalækkandi lyf
Ef einhver í fjölskyldunni slasar sig eða veikist getur verið gott að hafa meðferðis verkjastillandi og/eða hitalækkandi lyf. Fjölmörg slík lyf fást án lyfseðils í næsta apóteki.
Kælikrem og staðdeyfandi krem
Óþægindi á borð við kláða og sársauka í húð geta fylgt skordýrabitum, stungum og sólbruna. Kælikrem eða staðdeyfandi krem sem innihalda lídókaín henta vel við að draga úr kláða og öðrum slíkum óþægindum.
Ferðaveikilyf
Ef einhver í fjölskyldunni þjáist af bíl- eða sjóveiki getur reynst nauðsynlegt að hafa með sér ferðaveikilyf. Sér í lagi ef fjölskyldan ætlar í siglingu eða lengri bílferðir. Sumir finna jafnvel fyrir einkennum í tækjum skemmtigarða. Hægt er að nálgast lyf við þessum óþægindum í lausasölu apóteka en þar má einnig fá armbönd sem kunna að nægja í einhverjum tilfellum.
Lækningatæki
Munið einnig eftir að hafa meðferðis þau lækningatæki sem þið þurfið á að halda til persónulegra nota, svo sem nálar fyrir stungulyf, blóðsykurmæli, innöndunartæki fyrir astmalyf og hitamæli.