Að ferðast með lyf

Ákveðnar reglur gilda um hversu mikið magn af lyfjum er heimilt að ferðast með bæði til Íslands og frá Íslandi til annarra landa.

Hversu mikið magn af lyfjum er heimilt að hafa með sér á ferðalagi?

Á ferðalagi til Íslands er heimilt að taka með lyf til eigin nota að því tilskyldu að um sé að ræða lyf sem aflað hefur verið með lögmætum hætti. Einstaklingar mega hafa í fórum sínum við komuna til landsins frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins lyf sem samsvara árs notkun skv. notkunarfyrirmælum læknis. Ef einstaklingur kemur frá ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins takmarkast heimildin við 100 daga skammt.

Hvort sem ferðast er til eða frá Íslandi verða þeir sem ferðast með lyf í farangri að geta sýnt tollyfirvöldum fram á að þeir hafi þörf fyrir lyfin með vottorði, lyfseðli eða skriflegri yfirlýsingu frá lækni og sýnt fram á að lyfjanna hafi verið aflað með lögmætum hætti.

Ferðast til annarra landa með lyf

Í mörgum löndum gilda reglur um það magn lyfja sem heimilt er að ferðast með til eigin nota. Þetta gildir einkum og sér í lagi fyrir lyf sem flokkast sem ávana- og fíknilyf. Gott getur verið að kynna sér reglur viðkomandi lands eða landa áður en ferðin hefst. Einnig er hægt að hafa samband við sendiráð Íslands í viðkomandi landi og óska eftir upplýsingum um þær reglur sem gilda. 

Hvaða reglur gilda fyrir ávana- og fíknilyf

Til lyfja sem flokkast sem ávana- og fíknilyf skv. lögum má sem dæmi telja ákveðnar tegundir svefnlyfja, nokkur verkjastillandi lyf og lyf við ADHD. Fyrir ávana- og fíknilyf gilda aðrar reglur en almennt gengur og gerist um önnur lyf.

Einstaklingum er heimilt að koma með til landsins lyf til eigin nota, sem innihalda að hluta til efni sem tilgreind eru í fylgiskjali 1 við reglugerð nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, með eftirfarandi takmörkunum:

Hafi einstaklingur skráð lögheimili hér á landi gildir eftirfarandi;

  • Ef lyfjanna er aflað á Íslandi, er einstaklingi heimilt við komuna til landsins að hafa meðferðis ávana- og fíknilyf í magni sem samsvarar 30 daga skammti.
  • Hafi lyfjanna verið aflað erlendis þá er einstaklingi heimilt við komuna til landsins að hafa meðferðis ávana- og fíknilyf í magni sem samsvarar 7 daga skammti.
  • Ef lyfjanna hefur verið aflað erlendis og viðkomandi hefur í fórum sínum við komuna til landsins yfirlýsingu frá lækni með gilt lækningaleyfi hér á landi sem segir til um að viðkomandi einstaklingi séu lyfin nauðsynleg í læknisfræðilegum skilningi, þá er heimilt að koma með sem svarar til 30 daga skammti af ávana- og fíknilyfjum

Hafi einstaklingur ekki skráð lögheimil hér á landi gildir eftirfarandi;

  • Einstaklingum sem ekki hafa skráð lögheimil hér á landi er heimilt við komuna til landsins að hafa meðferðis ávana- og fíknilyf í magni sem samsvarar 30 daga skammti.
  • Einstaklingur á ferðalagi milli yfirráðasvæða eða innan yfirráðasvæða Schengen samningsaðila mega hafa meðferðis ávana- og fíknilyf í því magni sem nauðsynlegt er vegna læknismeðferðar að því tilskildu að þeir framvísi vottorði sem er gefið út eða staðfest af þar til bæru yfirvaldi í búsetulandi, sbr. 75. gr. Schengensamningsins. Slík vottorð gilda að hámarki í 30 daga frá útgáfudegi.
  • Embætti landlæknis gefur út slík vottorð en hægt er að sækja um Schengen lyfjavottorð á island.is.

Hafið lyfin í handfarangri

Þegar ferðast er erlendis er æskilegt að geyma öll lyf í handfarangri. Geymið þau helst í upprunalegri pakkningu, þannig að ef kemur til eftirlitsskoðunar á ferðalaginu er auðveldara að gera grein fyrir því um hvaða lyf ræðir.

Lyf í fljótandi formi (t.d. krem, mixtúrur og innúðalyf) eru undanþegin takmörkunum um magn vökva sem farþegar mega ferðast með í handfarangri. Þau þurfa ekki að rúmast innan glæra pokans með öðrum vörum í fljótandi formi en það gæti þurft að gera grein fyrir þeim vegna eftirlits.

Íslenskir lyfseðlar erlendis

Ekki er hægt að reikna með því að íslenskir lyfseðlar gildi í öðrum löndum. Erlend apótek hafa ekki aðgang að rafrænum lyfjaávísunum lækna á Íslandi. Gangið því úr skugga um að hafa meðferðis nægilegt magn lyfja, sem dugir á meðan á ferðalaginu stendur.

Geymsla lyfja þegar ferðast er

Lyf ber að geyma í viðeigandi hitastigi og vernda gegn sólarljósi og raka. Lesið ykkur til um hvernig best er að geyma lyfið í fylgiseðli lyfsins, hann er einnig að finna í sérlyfjaskrá.

Gætið sérstaklega að geymslu lyfja þegar ferðast er til landa þar sem veðurfar er frábrugðið því sem þekkist á Íslandi.

Sól og áhrif á húðina

Sum lyf geta valdið viðbrögðum í húðinni ef húðin verður fyrir sólarljósi, þetta á líka við um sólarljós frá sólbaðsstofubekkjum. Þetta kallast ljósnæmi og getur líkst sólbruna. Mikilvægt er að koma í veg fyrir slík viðbrögð. Lesa meira um sól og áhrif á húðina.

Síðast uppfært: 16. maí 2023
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat