Lyf við sumartengdu ofnæmi og skordýrabiti í lausasölu

Einkenni geta til að mynda verið roði, kláði og óþægindi sem geta varað í klukkustundir, daga og jafnvel lengur. Ýmis lyf, sem draga úr einkennum ofnæmis og/eða skordýrabits, fást í apótekum án ávísunar læknis.

Sjaldgæft er að skordýr á Íslandi beri með sér hættulega sjúkdóma. Erlendis er áhættan hins vegar meiri og því gagnlegt að kynna sér vel viðbrögð við skordýrabitum áður en lagt er upp í ferðir. Þá eru til lyf og krem sem nota má við bæði ofnæmi og skordýrabiti sem gæti verið gott að hafa með sér.

Hvað get ég gert til að minnka líkur á að fá bit?

Mikilvægt er að kynna sér hvaða dýr eru líkleg til að bíta þar sem þú ert. Helstu skordýr sem bíta á Íslandi bíta úti. Til að forðast bit frá lúsmý getur hjálpað að vera með viftu í svefnherberginu þar sem lúsmý getur ekki flogið í vindi. Einnig getur hjálpað að klæðast náttfötum og sokkum. Ef þetta tvennt gengur ekki upp er hægt að fá þéttriðið flugnanet í glugga en það þarf að vera að lágmarki 600 holur á fertommu til að gera gagn í tilfelli lúsmýs.

Til að forðast bit utandyra eins og frá býflugum eða geitungum er best að halda ró sinni ef þú ert í kringum flugurnar og hreyfa sig rólega.
Til að forðast bit frá almennum skordýrum er hægt að setja skordýravörn sem fæst í apóteki á húð og föt. Forðist að vera mikið ofan í blómum og runnum, rusli og pollum. Forðist að nota ilmsterkar vörur eins og sápur eða svitalyktareyði þar sem það getur laðað til sín skordýr.

Hvað get ég gert ef ég verð fyrir skordýrabiti eða stungu?

Á Heilsuveru er hægt að nálgast greinargóðar leiðbeiningar um viðbrögð við skordýrabiti.

Í leiðbeiningunum segir að í eftirfarandi tilfellum skuli hringja strax í Neyðarlínuna eða leita á bráðmóttöku:

 • Ef þú upplifir öndunarerfiðleika eða erfiðleika við að kyngja
 • Ef það birtist bólga í hálsi, andliti eða munni
 • Ef þú upplifir ógleði eða uppköst
 • Ef þú finnur fyrir hröðum hjartslætti, svima eða yfirliðstilfinningu
 • Ef þú færð meðvitundarskerðingu eða meðvitundarleysi

Hvaða lyf get ég fengið í lausasölu?

Lyf í lausasölu fást í apóteki án þess að vera með lyfseðil frá lækni. Ef þörf krefur er hægt að fá eftirfarandi lyf til að minnka einkenni ofnæmis og/eða skordýrabita. Hafa skal í huga að alltaf er mikilvægt að fara eftir notkunarleiðbeiningum lyfjanna, sem eru í fylgiseðli lyfsins.

Leitið ráða hjá lyfjafræðingi eða lyfjatækni í apóteki um hvaða verkja- eða bólgueyðandi lyf hentar ykkur best og í hvaða magni.

 

Eftirfarandi lyf er hægt að fá afgreidd í apóteki án lyfseðils

Lídókaín er notað til staðbundinnar deyfingar. Það er notað við kláða og sársauka í húð, t.d. eftir sólbruna, skordýrabit, minniháttar bruna og skrámur. Lyfið er notað staðbundið útvortis og verkar innan nokkurra mínútna.

Barksterar eru nýrnahettuhormón sem draga úr bólgulíkum einkennum.

Hydrocortison er notað staðbundið útvortis til þess að draga úr bólgu, kláða og exemi.

Mometason getur dregið úr ofnæmisbólgum (þrota og ertingu), hnerra, kláða og nefstíflu eða nefrennsli ef því er sprautað í nef.

Fluticason hefur bólgueyðandi verkun. Þegar því er úðað í nef dregur það úr bólgu og ertingu. Nefúðinn er notaður til að draga úr og meðhöndla árstíðarbundna ofnæmisbólgu í nefi.

Antihistamín koma í veg fyrir verkun histamíns í líkamanum en histamín er það efni sem veldur helstu einkennum ofnæmis.

Loratadín dregur úr ofnæmiseinkennum eins og nefrennsli, kláða í augum, ofsakláða og ofnæmiskvefi hjá fullorðnum og börnum frá 2 ára aldri. Loratadine er ekki talið slævandi en getur þó í einstaka tilfellum valdið syfju.

Ebastín er notað sérstaklega gegn ofsakláða, frjónæmi, skordýrabitum og ofnæmiskvefi auk annarra ofnæmisviðbragða hjá fullorðnum og börnum eldri en 12 ára. Ebastín er ekki talið slævandi en þar sem svefnhöfgi og sundl eru meðal hugsanlegra aukaverkana þarf við átta sig á því hvernig einstaklingurinn bregst við lyfinu áður en hann ekur bifreið eða stjórnar vélum.

Fexófenadínhýdróklóríð er notað við hnerra, nefrennsi og kláða í nefi og augum, táramyndun og roða í húð sem yfirleitt koma fram í tengslum við gróðurofnæmi. Lyfið á ekki að valda syfju en vissara er að athuga hvort það valdi sundli eða syfju fyrir notkun vélknúinna ökutækja og véla.

 • Nefoxef filmuhúðaðar töflur innihalda 120 mg af fexófenadínhýdróklóríði.
  Ef þörf krefur er hægt að fá 180 mg töflur gegn lyfjaávísun læknis.
 • Telfast filmuhúðaðar töflur innihalda 120 mg af fexófenadínhýdróklóríði.
  Hægt er að fá 180 mg töflum ávísað hjá lækni ef þörf krefur.

Desloratadín dregur úr einkennum ofnæmiskvefs hjá fullorðnum og unglingum, 12 ára og eldri. Einkenni geta verið hnerri, nefrennsli og kláði í nefi, efri gómi eða augum og rauð eða tárvot augu. Einnig er það notað gegn einkennum ofsakláða. Lyfið á ekki að valda syfju, þó er mælt með að taka ekki að sér verkefni sem krefjast árvekni fyrr en viðbrögð við lyfinu eru þekkt.

Cetirizín er notað hjá fullorðnum og börnum, 6 ára og eldri, til að meðhöndla árstíðabundið ofnæmiskvef, ofnæmi sem varir allt árið og ofsakláða. Lyfið dregur úr óþægindum sem tengjast þessu ástandi eins og hnerra, ertingu, nefrennsli og nefstíflu, kláða, roða, tárarennsli og húðútbrotum.

Dífenhýdramínhýdróklóríð virkar hóstastillandi og dregur úr ofnæmiseinkennum. Því er hægt að nota lyfin við þurrum hósta, ofnæmi, ofsakláða, frjókornaofnæmi og ofnæmiskvefi. Er ætlað fullorðnum og börnum frá 2 ára aldri en lyfið er merkt með rauðum varúðarþríhyrningi og því slævandi. Varað er við akstri vélknúinna ökutækja og véla eftir inntöku lyfsins.

 • Benylan mixtúra inniheldur dýfenhýdramínhýdróklóríð og fæst í tveimur styrkleikum; 1,4 mg/ml og 2,8 mg/ml

Klemastín er notað til meðferðar á ofnæmissjúkdómum, einkum ofsakláða, árstíðabundnu ofnæmiskvefi og ofnæmisviðbrögðum frá slímhúð nefsins fyrir fullorðna og börn frá 6 ára aldri. Lyfið er merkt með rauðum varúðarþríhyrning og er varað við akstri vélknúinna ökutækja og véla eftir inntöku þess.

Levókabastín er notað staðbundið við ofnæmisóþægindum t.d. í augum á borð við roða, þrota, kláða og rennsli úr augum eða í nefi við ofnæmisnefbólgu. Óþægindin geta stafað af ofnæmi af völdum frjókorna eða annarra loftborinna ofnæmisvalda. Lyfið er ætlað fullorðnum og börnum og hefst verkun þess innan 15 mínútna frá gjöf. Ráðlagt er að hver og einn leggi mat á getu sína til aksturs og notkunar véla eftir notkun lyfjanna.

Ketótifen er notað staðbundið til meðferðar á einkennum frjókornaofnæmis í augum og er ætlað fullorðnum og börnum frá 3 ára aldri. Ef notandi finnur fyrir þokusýn eða syfju er ráðlagt að bíða þar til einkennin hafa liðið hjá fyrir notkun véla eða akstur.

Ipratropiumbrómíð er svokallað andkólínvirkt lyf og er notað fyrir fullorðna til að hemja vatnskennda seytingu úr slímhimnum nefsins t.d. vegna ofnæmiskvefs. Lyfið byrjar að verka innan 15 mínútna.

Ef verkir eða bólgur valda vandræðum við skordýrabit er hægt að nálgast verkja- eða bólgueyðandi lyf í apóteki. Til dæmis má nefna tvö af þeim algengustu.

Paracetamól er notað við vægum verkjum og til að lækka sótthita.
Hægt er að nálgast það í lausasölu á töfluformi, í mixtúru, endaþarmsstílum, freyðitöflum og í mixtúrudufti frá ýmsum framleiðendum.

Ibuprofen tilheyrir flokki bólgueyðandi lyfja sem ekki eru sterar og dregur það úr verkjum, bólgu og hita. Lyfið er fáanlegt í lausasölu sem mjúkt hylki, tafla eða mixtúra frá ýmsum framleiðendum.

Hvað get ég notað annað en lyf?

Til að fæla burtu skordýr og flugur er ýmislegt annað til. Þar má nefna armbönd, flugnafælusprey, klemmur með ilm, húðrúllu (e. roll on), rafmagnsflugnafælu, flugnafælumjólk, skordýrafæluvökva og margt fleira. Einnig er hægt að kaupa flugnanet, kælipoka við bólgu og kláða eftir bit og sáragel eða sprey sem dregur úr sviða og kláða og er græðandi.

Leitið til læknis ef ofnæmiseinkennin eru viðvarandi, eða lyfjameðferðin nægir ekki til að halda einkennum í skefjum.

Hvar get ég nálgast lausasölulyf?

Lausasölulyf fást í apótekum og útibúum þeirra víðsvegar um allt land. Sala tiltekinna lausasölulyfja er jafnframt heimiluð utan apóteka að fenginni sérstakri undanþágu Lyfjastofnunar. Lyf sem innihalda cetirizín, lóritín, paracetamól og ibuprofen fást m.a. í þeim verslunum sem hafa gilda undanþágu.

Hvar get ég nálgast nánari upplýsingar um lyfin mín?

Á vefnum lyf.is er hægt að fletta upp öllum markaðssettum lyfjum á Íslandi. Þar er meðal annars að finna fylgiseðla sem innihalda ítalegar upplýsingar um lyfið, s.s. hvernig á að geyma lyfið og þekktar aukaverkanir þess.

Þessi frétt er unnin af lyfjafræðinema sem hluti af starfsþjálfun hjá Lyfjastofnun, undir handleiðslu lyfjafræðings samskiptadeildar.

Síðast uppfært: 12. júní 2023
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat