Er í lagi að drekka áfengi samhliða notkun lyfja?

Áfengi ætti aldrei að drekka samhliða notkun ákveðinna lyfja því það gæti valdið óæskilegum viðbrögðum. Í fylgiseðlinum kemur fram hvort þörf er á að sniðganga áfengi á meðan notkun lyfsins stendur.

Hefurðu velt því fyrir þér hvort þú megir fá þér vínglas á sama tíma og lyfjameðferð stendur?

Almennt ætti að fara varlega í notkun áfengis þegar lyf eru tekin. Á þetta jafnt við um lyf sem tekin eru að staðaldri og lyf sem tekin eru tímabundið, s.s. verkjastillandi og bólgueyðandi lausasölulyf.

Viðbrögð fólks geta verið mismunandi og áfengisneysla getur verið hættuleg samhiða notkun ákveðinna lyfja.

Góð regla er að lesa alltaf fylgiseðil lyfsins, þar kemur meðal annars fram hvort þörf er á að sniðganga áfengi alfarið á meðan á lyfjatöku stendur. Fylgiseðillinn fylgir lyfinu og einnig má fletta honum upp á vefnum lyf.is.

Áfengisnotkun samhliða notkun lyfja gæti til dæmis:

  • Dregið úr eða aukið áhrif lyfsins. Notkun lyfja sem innihalda parasetamól samhliða áfengisneyslu getur haft skaðleg áhrif á lifur.
  • Valdið því að lyfið brotnar hægar niður í líkamanum sem getur valdið óæskilegum aukaverkunum
  • Aukið hættuna á að óvarlega sé farið með lyfin t.d. þannig að þau séu notuð rangt eða inntaka þeirra gleymst.

Þar að auki geta sum lyf haft áhrif á niðurbrot áfengis í líkamanum.

Sýndu sérstaka aðgát ef þú notar eitthvert þessara lyfja og hyggst neyta áfengis

  • Lyf sem verka á miðtaugakerfið s.s. kvíðastillandi lyf, geðlyf, lyf við flogaveiki og sterk verkjalyf
  • Ákveðin sýklalyf s.s. sýklalyf sem innhalda metrónídazól. Notkun áfengis samhliða inntöku þeirra getur valdið miklum óþægindum s.s. uppköstum.
  • Ákveðin lausasölulyf s.s. verkjastillandi og bólgueyðandi lyf

Ráðfærðu þig ávallt við lækni, lyfjafræðing eða lyfjatækni í apóteki ef þú ert í vafa.

Síðast uppfært: 1. ágúst 2023
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat