Tilraunaútgáfa stoðskrár lyfja gefin út

Lyfjastofnun hefur gefið út tilraunaútgáfu stoðskrár
lyfja sem ætlað er að stuðla að skilvirkri og öryggri lyfjanotkun. Stoðskráin,
sem enn hefur ekki fengið nafn, er fyrst og fremst sniðin að þörfum heilbrigðisstarfsfólks
og starfsfólks apóteka sem gætu nýtt upplýsingar úr stoðskránni t.d. við ávísun
lyfja, afgreiðslu þeirra og/ eða lyfjadreifingu. Stoðskráin er opin öllum.

Hvað býður tilraunaútgáfan uppá?

Stoðskráin inniheldur
upplýsingar um þau lyf sem eru fáanleg á Íslandi, bæði lyf sem eru markaðssett
en einnig óskráð lyf sem lyfjagreiðslunefnd hefur samþykkt verð fyrir. Í
skránni eru einnig upplýsingar um hvaða pakkningar eru fáanlegar og hvaða lyfi
þær tilheyra. Sömuleiðis er hægt að sjá minnstu einingu pakkningar í
stoðskránni. Heilbrigðisstofnanir gætu t.d. nýtt skrána í starfi t.d. við ávísanir
og lyfjagjöf eða sem verkfæri við birgðastýringar og pantanagerð.

Samstarfsverkefni sem byggir á norskri fyrirmynd

Um er að ræða verkefni sem hefur verið unnið í
samstarfi við Embætti landlæknis, heilbrigðisráðuneytið og hugbúnaðarfyrirtækið
Þulu og byggir á norskri stoðskrá lyfja sem kallast FEST (Forskrivnings- og
ekspedisjonsstøtte)
.

Langtímamarkmið að bæta stoðskrána

Langtímamarkmið Lyfjastofnunar er að bæta stoðskrána
enn frekar. Stefnt er að því að endanleg útgáfa stoðskrárinnar endurspegli
raunstöðu lyfja á markaði hérlendis hverju sinni og að uppfærslur verði
mánaðarlega. Áfram verður unnið að því að bæta við ýmsum möguleikum fyrir
notendur t.d. upplýsingaleit um milliverkanir lyfja og ávísanareglur. Vonir
standa til að hægt verði að gefa út endanlega útgáfu stoðskrárinnar síðar á
árinu. Upplýst verður um framvinduna þegar fram líða stundir.

Nánar
um stoðskrána

Tilraunaútgáfa stoðskrárinnar inniheldur
upplýsingar um lyf á markaði eins og staðan var 31. ágúst 2018. Hún er birt til
að gefa áhugasömum tækifæri til að prófa upplýsingarnar í sínum hugbúnaði. Stoðskráin er gefin út á XML formi og því ekki
háð ákveðnum hugbúnaði. Þannig gefst notendum möguleiki á að samkeyra
upplýsingarnar við sín tölvukerfi.

Sækja tilraunaútgáfu stoðskrárinnar. (Athugið skjalið er 40,8 MB)

Ath. tilraunaútgáfan inniheldur upplýsingar m.v. stöðu 31. ágúst 2018.

Síðast uppfært: 12. febrúar 2019
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat