Sóttvarnarstofnun Evrópu og Lyfjastofnun Evrópu hafa gefið út sameiginlega yfirlýsingu um notkun uppfærðra bóluefna til varnar Omicron afbrigði COVID-19. Ákvörðun um notkun örvunarskammta með uppfærðu bóluefni verður eftir sem áður tekin af heilbrigðisyfirvöldum í hverju landi fyrir sig, rétt eins og gildir um aðrar ákvarðanir um bólusetningar gegn COVID-19.
Sóttvarnarlæknir hefur nú þegar gefið út leiðbeiningar fyrir haustið 2022.
Virkni og öryggi
Þann 1.september 2022 fengu uppfærðu bóluefnin Comirnaty Original/Omicron BA.1 og Spikevax Bivalent Original/Omicron BA.1 markaðsleyfi í Evrópu. Þau innihalda mRNA sem gefa boð um famleiðslu á gaddapróteinum SARS-CoV-2 og Omicron afbrigði BA.1. Í klínískum tilraunum kom fram að þessi bóluefni vöktu sterkara ónæmissvar gegn Omicron BA.1 afbrigði veirunnar en upprunalegu bóluefnin. Niðurstöðurnar bentu einnig til þess að öryggi uppfærðu bóluefnanna og líkur á aukaverkunum væru sambærilegar við þau upprunalegu.
Hlé milli skammta
Samkvæmt markaðsleyfi uppfærðu bóluefnanna er heimilt að gefa örvunarskammt af bóluefnunum minnst þremur mánuðum frá síðustu bólusetningu. Miðað við reynslu hefur vörnin þó haldið í að minnsta kosti fjóra mánuði frá fyrsta örvunarskammti. Lengra hlé en fjóra mánuði þarf að skoða með tilliti til aukins ónæmissvars því lengra sem líður á milli bólusetninga, dvínandi varnar og stöðu faraldursins á hverju svæði fyrir sig.
Rannsóknir á vörn einstaklinga sem hafa fengið bæði smit og bólusetningu benda eindregið til þess að þeir séu betur varðir en einstaklingar sem hafa aðeins fengið annað hvort. Slíkt samsett ónæmi virðist dvína hægar. Þó er styrkur varnar og ending hennar breytileg eftir tegund bóluefnis, tíma frá sýkingu, afbrigði veiru og eiginleikum einstaklingsins.
Notkun uppfærðs bóluefnis
Eins og staðan er nú mæla stofnanirnar eingöngu með notkun á uppfærðum bóluefnum fyrir þá einstaklinga sem þegar hafa þegið að minnsta kosti eina bólusetningu. Ekki skiptir máli hvaða bóluefni var notað í upphafi. Upprunaleg bóluefni gegn SARS-CoV-2 skal ennþá nota sem fyrstu bólusetningu gegn COVID-19.
Fleiri möguleikar í vinnslu
Ekki er hægt að spá fyrir um hvaða afbrigði veirunnar nær mestri dreifingu í haust og vetur og því er mikilvægt að fjölbreytt úrval bóluefna sé í boði.
Nú þegar er búið að veita bóluefnum sem gefa samsetta vörn gegn upprunalegu veirunni og Omicron BA.1 afbrigði markaðsleyfi. Umsóknir fyrir samsett bóluefni gegn Omicron BA.4/5 afbrigði og upprunalegu veirunni eða Beta afbrigði hennar eru í flýtimeðferð hjá EMA.
Nánari upplýsingar má finna í frétt á vef EMA og yfirlýsingu frá ECDC og EMA.