Yfirlýsing um öryggi bóluefna gegn COVID-19

Alþjóðasamband lyfjastofnana hefur sent frá sér yfirlýsingu til að vekja athygli á öryggi bóluefna gegn COVID-19 og bendir einnig á hvernig ýmsar upplýsingar um þau hafa verið rangtúlkaðar. Þrettán milljarðar bóluefnaskammta hafa verið gefnir

Alþjóðasamband lyfjastofnana (e. International Coalition of Medicines Regulatory Authorities; ICMRA) var stofnað með það í huga að efla samskipti lyfjastofnana vítt og breitt um heiminn. Slík samtök myndu auðvelda miðlun upplýsinga og þannig stuðla enn frekar að öryggi og virkni lyfja, auk þess sem stofnaninar væru betur í stakk búnar til að takast við víðtæka heilsuvá. Sambandið á sögu að rekja rúman áratug aftur í tímann og nú eiga 38 lyfjastofnanir víðs vegar um heim aðild að því, þar á meðal Lyfjastofnun.

Öryggi bóluefnanna

Í yfirlýsingunni er að finna nokkur lykilatriði sem undirstrika öryggi bóluefnanna og mikilvægi þeirra fyrir heilsu fólks um heim allan.

  • Bóluefnin gegn COVID-19 minnka til muna hættu á alvarlegum sjúkdómi, sjúkrahúsvist og dauða
  • SARS-CoV-2 veiran breytist stöðugt og því má reikna með að áfram verði þörf á örvunarbólusetningum
  • Gögn sem tengjast meira en þrettán milljörðum bóluefnaskammta sem gefnir hafa verið á heimsvísu sýna að öryggi bóluefnanna er meira en áhættan
  • Langflestar aukaverkanir sem fylgja notkun bóluefnanna eru vægar og tímabundnar
  • Tilkynningum vegna gruns um aukaverkun eftir COVID-19 bólusetning er safnað saman og þær metnar af sérfræðingum eins og á við um öll önnur lyf
  • Vísbendingar eru um að bólusetning dragi úr líkum á langvarandi COVID-19 sjúkdómi

Rangfærslur um bóluefnin

Rangar eða misvísandi fullyrðingar um bóluefnin gegn COVID-19 hafa víða komið fram á samfélagsmiðlum. Tilkynningar um aukaverkanir tengdar bóluefnunum eru þá gjarnan ýktar eða mistúlkaðar, óskyld sjúkdómstilvik stundum ranglega tengd bóluefnunum. Slíkar rangfærslur hafa að líkindum leitt til alvarlegs heilsutjóns hjá mörgum þeim sem í kjölfarið hættu við að þiggja bólusetningu.

Engin gögn renna stoðum undir fullyrðingar um að COVID-19 bóluefnin hafi valdið fjölgun dauðsfalla á tímum heimsfaraldursins. Af gögnum sést hins vegar að fjöldi dauðsfalla jókst í takt við fjölgun sjúkdómstilvika, sérstaklega í fyrstu bylgju faraldursins þegar engin bóluefni voru til staðar.

Mikilvægt er að ganga ávallt úr skugga um að þær heimildir sem skoðaðar eru um COVID-19 bóluefnin séu öruggar og taki tillit til nýjustu rannsókna.

Yfirlýsing ICMRA

Frétt EMA um yfirlýsingu ICMRA

Síðast uppfært: 6. júlí 2023
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat