Lyfjastofnun bregst við áskorunum vegna lyfjaskorts

Síðustu ár hefur vandi vegna lyfjaskorts farið vaxandi um allan heim. Hjá ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu vinna lyfjastofnanir náið saman að öllu því sem snýr að lyfjamálum, þar með talið að lausnum vegna lyfjaskorts. Lyfjastofnun tekur virkan þátt í því samstarfi. Á þeim vettvangi er markvisst unnið að því að reyna að koma í veg fyrir eða milda þau áhrif sem lyfjaskortur getur haft á lyfjanotendur. Meðal annars með því að efla upplýsingamiðlun, og auka samskipti og samtal þeirra sem koma að þessum málum.

Lyfjastofnun bregst við áskorunum vegna lyfjaskorts

Lyfjastofnun hefur gripið til ýmissa aðgerða til að bregðast við þessum vanda: 

 

 

  • Starfsgildum sem snúa að lyfjaskorti hefur verið fjölgað. Hjalti Kristinsson er deildarstjóri lyfjaöryggisdeildar sem sinnir lyfjaskorti innan Lyfjastofnunar. Rætt er við Hjalta um skortsmálin í nýjasta þætti Hlaðvarps Lyfjastofnunar.
  • Upplýsingamiðlun varðandi lyfjaskort hefur verið efld. Nú er aðgengilegur listi yfir tilkynnt lyfjaskortstilfelli á vefnum með ráðleggingum. Í mikilvægum tilvikum eru einnig birtar fréttir um lyfjaskort sem innihalda nánari upplýsingar um ráðleggingar og möguleg úrræði.
  • Afgreiðslureglur vegna undanþágulyfseðla hafa verið rýmkaðar.
  • Og almenningi hefur verið gert kleift að tilkynna um lyfjaskort.

 

Samstarf við hagsmunaaðila og heilbrigðisstarfsfólk gengið vel

Markaðsleyfishöfum er skylt að tilkynna fyrirsjáanlegan lyfjaskort til Lyfjastofnunar með minnst tveggja mánaða fyrirvara. Það hefur gengið ágætlega segir Hjalti. Á síðasta ári bárust stofnuninni 399 slíkar tilkynningar, en ekki varð þó skortur á lyfjum í öllum þeim tilvikum. Þá tókst Lyfjastofnun í langflestum tilvikum að koma í veg fyrir alvarlegan eða algjöran skort á lyfjum með sama virka efninu, í samstarfi við aðrar stofnanir og fyrirtæki.

Frekar eldri lyf sem skortir

Almennt talað verður vart við skort í öllum lyfjaflokkum. Þó virðist heldur algengara að eldri lyf skorti, samheitalyf þar sem einkaréttur er fallinn úr gildi, segir Hjalti. Hann segir að samkvæmt skýrslu frá bandarískum lyfjayfirvöldum sé ástæðan fyrir því talin sú að með minni ágóða dragi úr hvatanum til að framleiða slík lyf. Verið sé að skoða þau mál bæði vestan hafs og í Evrópu, hvað sé hægt að gera til að hvetja fyrirtækin til að framleiða þessi eldri, og oft á tíðum bráðnauðsynlegu lyf, eins og sýklalyf til dæmis. 

 

Síðast uppfært: 22. janúar 2020
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat