Tilkynningar um aukaverkanir lyfja sem bárust Lyfjastofnun í febrúar sl. voru 206 talsins, heldur færri en í janúar en fleiri en berast að jafnaði á heilu ári. Flestar tilkynninganna voru tengdar bóluefnum gegn COVID-19 eða um 87%.
Eins og getið var um í frétt hér á vefnum fyrir skömmu, er einkum tvennt sem gæti skýrt mikla fjölgun tilkynninga frá því sem áður var. Þar má nefna tilkynningaskyldu heilbrigðisstarfsfólks en hún kom til með nýjum lyfjalögum sem tóku gildi í ársbyrjun. Aukin vitund almennings um mikilvægi aukaverkanatilkynninga á tímum heimsfaraldurs gæti einnig skýrt þetta að einhverju leyti. Miðlun upplýsinga um bóluefni gegn COVID-19 og hugsanlegar aukaverkanir af þeim hefur enda verið áberandi. Á vef Lyfjastofnunar er þannig að finna sérstaka síðu þar sem fjallað er um aukaverkanir sem gætu fylgt COVID-19 bóluefnum. Þar eru uppfærðar daglega upplýsingar um fjölda aukaverkanatilkynninga sem borist hafa Lyfjastofnun, og áhersla lögð á að í þeim er tilkynnt um grun um aukaverkanir, ekki er um staðfest tilvik að ræða.
Heildarfjöldi tilkynninga í febrúar var 206. Af þessum tilkynningum tengdust 180 bóluefnum gegn COVID-19; 29 vegna Comirnaty (BioNTech/Pfizer), 65 vegna bóluefnis Moderna, og 86 vegna AstraZeneca. Tuttugu og sex tilkynninganna tengdust öðrum lyfjum.
Fjöldi tilkynninga eftir alvarleika
Fimmtán af tilkynningum febrúarmánaðar voru vegna gruns um alvarlega aukaverkun. Níu þeirra tengdust bóluefnum; 5 vegna bóluefnis Pfizer, 2 vegna AstraZeneca, og 2 vegna Moderna. Hinar 6 tengdust öðrum lyfjum.
Fjöldi tilkynninga eftir tilkynnendum
Tuttugu og fimm tilkynninganna voru frá læknum, og hundrað frá öðrum heilbrigðisstarfsmönnum. Lyfjafræðingar sendu átján tilkynningar um aukaverkanir, og sextíu og tvær bárust frá notendum eða aðstandendum þeirra.
Mikilvægt að tilkynna um aukaverkun lyfs
Enn skal áréttað að aukaverkanatilkynningar veita mikilvægar upplýsingar um öryggi lyfja þegar þau eru komin í almenna notkun. Því er rétt að hvetja almenning jafnt sem heilbrigðisstarfsfólk til að senda upplýsingar um slík tilvik til Lyfjastofnunar, allir geta tilkynnt grun um aukaverkun lyfs. Hægt er að tilkynna rafrænt í gegnum gátt á vef Lyfjastofnunar.
Í því sambandi má líka minna á að Lyfjastofnun Evrópu hefur hvatt sérstaklega til þess að aukaverkanir lyfja sem gefin hafa verið við COVID-19 sjúkdómnum, þar á meðal vegna bóluefna gegn COVID-19, verði tilkynntar, sem og aukaverkanir af lyfjanotkun vegna annarra sjúkdóma meðan á COVID-19 veikindum stendur.