Árskýrsla Lyfjastofnunar er komin út

Árið 2020 var afmælisár og áskoranir tengdar COVID-19 einkenndu það

Ársskýrsla Lyfjastofnunar fyrir árið 2020 hefur verið gefin út og eins og síðustu ár er hún eingöngu gefin út rafrænt.

Í ávarpi sínu ræðir Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, m.a. um þær miklu áskoranir sem þurfti að takast á við á síðasta ári vegna faraldursins og verkefna tengdum honum. Í ársbyrjun 2020 gerði starfsfólk Lyfjastofnunar ráð fyrir viðburðaríku afmælisári stofnunarinnar með skipulögðum viðburðum í tilefni af því að 20 ár voru liðin frá því að stofnunin tók formlega til starfa. Árið þróaðist á allt annan hátt, því í febrúar 2020 skall COVID-19 faraldurinn á með fullum þunga.

Lyfjastofnun 20 ára

Rúna segist óendanlega þakklát og stolt af samstarfsfólki sínu sem hafi staðið vaktina allt árið og sinnt öllum kjarnastörfum með sóma þrátt fyrir endalausar áskoranir tengdum COVID-19. "Ekkert var slegið af í því að tryggja að tímalínur verkefna stæðust og öryggi sjúklinga væri tryggt."

Þrátt fyrir krefjandi verkefni og miklar annir segir Rúna árið hafa verið ánægjulegt að mörgu leyti.

Það er gott og gefandi að taka þátt í jafn mikilvægu verkefni og að koma bóluefnum í gegnum skráningar, framleiðslu og flutning og í handlegg viðtakenda, og þar með að stuðla að því að við sjáum fyrir endann á þessum faraldri. Að eðlilegt líf geti hafist fyrr en síðar.

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar

Ársskýrslan er aðgengileg í heild sinni á vef stofnunarinnar.

Síðast uppfært: 15. júní 2021
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat