Bólgueyðandi lyf og COVID-19

Undanfarið hafa komið fram staðhæfingar, m.a. á samfélagsmiðlum, þess efnis að bólgueyðandi lyf á borð við íbúprófen geti valdið því að COVID-19 sjúkdómurinn ágerist; í þessu sambandi er átt við bólgueyðandi lyf sem ekki eru sterar (NSAID).

Engar haldbærar upplýsingar styðja það að notkun íbúprófens fylgi versnandi ástand sjúklinga með COVID-19. Sérfræðingar Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) fylgjast grannt með og munu meta hverjar þær nýjar upplýsingar sem kunna að berast um slíkt orsakasamhengi.

Íbúprófen og ketóprófen til rannsóknar

Sérfræðinefnd EMA um eftirlit með ávinningi og áhættu lyfja (PRAC) hófst í maí 2019 handa við að endurmeta NSAID-lyfin íbúprófen og ketóprófen. Sú vinna hófst í kjölfar könnunar frönsku lyfjastofnunarinnar, en í þeirri könnun komu fram vísbendingar um að sýkingar af völdum hlaupabóluveirunnar og sumra baktería, ágerðust við notkun slíkra bólgueyðandi lyfja.

Í upplýsingum margra NSAID-lyfja er tekið fram að bólgueyðandi áhrif þeirra kunni að dylja einkenni versnandi sýkingar. PRAC skoðar nú öll tiltæk gögn sem þessu tengjast til að meta hvort nýrra leiðbeininga sé þörf.

Meðferð við verkjum og hita af völdum COVID-19

Til að meðhöndla verki og hita af völdum COVID-19 er rétt að hafa í huga að ýmis lyf koma til greina, þar á meðal parasetamól og NSAID-lyf. Hvert lyf hefur sína kosti og galla, ávinning og áhættu, sem gerð er grein fyrir í upplýsingum sem lyfinu fylgja. Meta þarf út frá þeim upplýsingum hvaða meðferð hentar hverju sinni. Sjúklingar og heilbrigðisstarfsmenn geta haldið áfram að nota NSAID-lyf (eins og íbúprófen) í samræmi við samtantekt á eiginleikum lyfjanna. Mælst er til að nota eins lágan skammt og mögulegt er og í sem skemmstan tíma.

Ekki ástæða til hætta notkun íbúprófens

Sjúklingar ættu að ræða við lækni eða lyfjafræðing í apóteki, vakni spurningar um notkun íbúprófens. Ekkert bendir til að svo komnu máli, að ástæða sé til að hætta notkun íbúprófens. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir sjúklinga sem taka íbúprófen eða önnur NSAID-lyf að staðaldri við langvinnum sjúkdómum, svo sem liðagigt og öðrum gigtarsjúkdómum.

EMA kallar eftir rannsóknum

PRAC mun halda áfram mati á íbúprófeni og ketóprófeni, en Lyfjastofnun Evrópu kallar jafnframt eftir faraldursfræðilegum rannsóknum sem varpað gætu ljósi á áhrif NSAID-lyfja á þróun COVID-19 sjúkdómsins. Stofnunin hefur í þessu skyni haft samband við hagsmunaaðila í von um stuðning.

Frétt EMA um NSAID-lyf og COVID-19 

Síðast uppfært: 30. nóvember 2020
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat