Elvanse – fjöldi ávísana í umferð gæti leitt til skorts

Ávísanirnar eru í mismunandi styrkleikum og virðist þeim hafa fjölgað þegar lyfið var ófáanlegt. Þess vegna hafa lyfjafræðingar í apótekum fengið tímabundinn lesaðgang að lyfjagagnagrunni landlæknisembættisins, fyrir tilstuðlan Lyfjastofnunar, til að koma í veg fyrir afgreiðslu lyfsins í óþarflega miklu magni. Lyfjastofnun telur tímabært að lyfjafræðingar í apótekum fái aðgang til frambúðar.

Eitt af markmiðum lyfjalaga er að sporna við óhóflegri notkun lyfja. Markmið reglugerðar um lyfjaávísanir og afhendingu lyfja er að stuðla að skilvirkri og ábyrgri notkun lyfja. Lyfjastofnun starfar með markmið laganna að leiðarljósi. 

Lyfjaávísunum á mismunandi styrkleika fjölgaði þegar lyfið var ófáanlegt

Lyfjastofnun hefur umtalsverðar áhyggjur af fjölda lyfjaávísana lyfsins Elvanse Adult í umferð. Ávísanirnar eru í mismunandi styrkleikum og virðist þeim hafa fjölgað þegar lyfið var ófáanlegt. Lyfið inniheldur lísdexamfetamín og tilheyrir flokki eftirritunarskyldra ávana- og fíknilyfja. Lyfið getur haft í för með sér sérstaka áhættu á misnotkun. Lyfið er samþykkt til notkunar sem meðferð við athyglisbresti með ofvirkni (ADHD) hjá fullorðnum og hámarksskammtur lyfsins er 70 mg á dag.

Um eftirritunarskyld lyf gilda, öryggisins vegna, sérstakar reglur hvað varðar ávísun, afgreiðslu, móttöku og skráningu upplýsinga.

Afgreiðsla eftirritunarskyldra ávana- og fíknilyfja takmarkast við 30 daga skammt

Lögum samkvæmt er lyfjafræðingum einungis heimilt að afgreiða sem nemur 30 daga skammti eftirritunarskyldra ávana- og fíknilyfja þegar a.m.k. 25 dagar eru liðnir frá síðustu afgreiðslu. Lyfjastofnun hefur borist ábending um að það reynist lyfjafræðingum erfitt að uppfylla þetta skilyrði laganna án aðgangs að lyfjagagnagrunni landlæknisembættisins. Apótek í keðjum geta í einhverjum tilfellum séð afgreiðslur sinna apóteka á milli en það er ekki algilt og á ekki við um apótek sem starfa utan keðja.

Fjöldi ávísana í umferð hefur leitt af sér hömstrun lyfsins

Í tengslum við nýlegan birgðaskort á lyfinu Elvanse Adult barst Lyfjastofnun fjöldi ábendinga frá starfsfólki apóteka og heilsugæslunnar um aukinn fjölda lyfjaávísana í umferð á lyfið. Lýstu þeir áhyggjum sínum af að þetta kynni að hafa í för með sér aukna hættu á að sjúklingar fengju afgreidd lyf á svig við kröfur reglugerðar um að mest megi afgreiða sem nemur 30 daga skammti lyfjanna og að það myndi hugsanlega auka magn þessara lyfja á svörtum markaði. Ábendingar hafa borist Lyfjastofnun um hömstrun lyfsins hjá einstaklingum.

Við hjá Lyfjastofnun tökum undir þessar áhyggjur heilbrigðisstarfsfólks og bendum einnig á að ef ákveðnir einstaklingar komast upp með að kaupa lyf í óhófi getur það leitt til lyfjaskorts hjá öðrum sem þurfa á lyfinu að halda.

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar

Starfsfólk apóteka með tímabundinn lesaðgang að lyfjagagnagrunninum

Starfsfólk Lyfjastofnunar brást við ábendingum apóteka og heilbrigðisstarfsfólks með því að óska eftir því við landlæknisembættið að lyfjafræðingar í apótekum yrði veittur tímabundinn lesaðgangur að lyfjagagnagrunninum til að stemma stigu við hömstrun lyfsins. Með aðgangi að lyfjagagnagrunninum er unnt að sjá afgreiðslusögu viðskiptavinar og þar með hvort hann hafi fengið lyfið afgreitt í öðru apóteki innan sl. 25 daga. Ef það er raunin, getur og ber lyfjafræðingi í apóteki að hafna afgreiðslu lyfsins á grundvelli framangreindra afgreiðslutakmarkanna.

Eins og fyrr segir, hefur starfsfólk apóteka alla jafna ekki þessa heildrænu yfirsýn yfir afgreiðslu lyfja, sem lesaðgangur að lyfjagagnagrunni veitir, með þeim afleiðingum að tæknilega getur einstaklingur farið á milli apóteka og fengið eftirritunarskyld ávana- og fíknilyf afgreidd oftar en heimilt er.

Við teljum að það sé tímabært að lyfjafræðingar sem starfa í apótekum fái til frambúðar aðgang að lyfjagagnagrunninum einkum og sér í lagi þegar kemur að afgreiðslu lyfja í flokki ávana- og fíknilyfja.

Rúna Hauksdóttir Hvannberg. forstjóri Lyfjastofnunar
Síðast uppfært: 20. desember 2023
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat