Endurmeta hættu á mistökum við skömmtun metótrexats

Lyfjastofnun Evrópu, EMA, hefur að beiðni spænsku lyfjastofnunarinnar hafið rannsókn á tilvikum þar sem mistök hafa orðið við skömmtun metótrexats (methotrexate). Lyfið er notað við ákveðnum tegundum krabbameins sem og sumum gigtarsjúkdómum. Það er ýmist ætlað til inntöku, gefið með sprautu eða sem innrennslislyf. Við gigt er metótrexat að jafnaði gefið einu sinni í viku, en gegn sumum tegundum krabbameins eru skammtarnir sterkari og lyfið notað tíðar.

Hættan á mistökum við skömmtun metótrexats hefur verið þekkt um nokkurra ára skeið. Komið hefur upp að sjúklingar sem áttu að fá lyfið vikulega hafa tekið það daglega, stundum með alvarlegum afleiðingum. Í sumum Evrópulöndum hefur verið brugðist við hættunni með sérstakri merkingu á lyfjaumbúðum. Þrátt fyrir þetta hafa nýlega komið upp tilvik mistaka við notkun metótrexats sem m.a. hafa leitt til dauðsfalla. Því hefur verið óskað eftir því að EMA rannsaki hvað valdi endurteknum mistökum af þessu tagi og finni leiðir til að koma í veg fyrir þau.

Í fyrstu mun PRAC, sérfræðinefnd EMA um eftirlit með ávinningi og áhættu lyfja, fjalla um málið og koma með tillögur. Þeim verður síðan vísað til CHMP, sérfræðinganefndar Lyfjastofnunar Evrópu um lyf fyrir menn, sem metur tillögurnar. Að síðustu tekur Framkvæmdastjórn ESB ákvörðun í málinu sem verður lagalega bindandi í löndum Evrópusambandsins og á EES svæðinu. 

Metótrexat er á markaði á Íslandi í hinum ýmsu lyfjaformum.

Frétt EMA um rannsókn á skömmtun metótrexats

Síðast uppfært: 17. apríl 2018
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat