Evrópsk bólusetningarvika

Síðasta vikan í apríl er í Evrópu helguð mikilvægi bólusetninga. Talið er að bóluefnin komi árlega í veg fyrir tvær til þrjár milljónir dauðsfalla í heiminum

Evrópska bólusetningarvikan er haldin árlega 24.-30. apríl til að minna á mikilvægi bólusetninga, hve heppið núlifandi fólk má teljast að til skuli vera bóluefni sem verndi gegn fleiri en 20 lífshættulegum sjúkdómum. Þar á meðal eru mænusótt, barnaveiki, stífkrampi og mislingar, að ógleymdum bóluefnunum gegn COVID-19. Þetta hefur orðið til að lengja líf fólks um heim allan, og gera fólki kleift að lifa heilbrigðara og ríkulegra lífi.

Emer Cooke forstjóri Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) hefur í tilefni bólusetningarvikunnar skrifað grein sem birtist á vef EMA. Útdráttur úr greininni birtist hér.

Vörn bóluefnanna

Ekki er langt síðan mislingar voru einn mesti skaðvaldur ungra barna. Á árunum frá 2000 til 2018 fækkaði dauðsföllum um nánast þrjá fjórðu, eða 73%. Talið að bóluefnið hafi komið í veg fyrir 23,2 milljónir dauðsfalla í heiminum á þessu tímabili.

Mænusótt eða lömunarveiki er sjúkdómur sem oft hefur alvarlegar afleiðingar hjá þeim sem lifa af, óafturkræfa lömun. Tekist hefur að útrýma mænusótt í svo til öllum löndum heims eftir að farið var í bólusetningarátak á árunum 1988-2015. Á því tímabili fækkaði dauðsföllum af völdum mænusóttar meðal ungbarna um 96%.

Malaría er ennþá víðtækt heilbrigðisvandamál. Árið 2020 er áætlað að tilvik malaríusýkinga hafi verið 241 milljón sem leiddi til 627.000 dauðsfalla. Það var ekki fyrr en 2015, eftir áratuga rannsóknarvinnu, að bóluefni gegn kom til mats hjá Lyfjastofnun Evrópu, og nýlega mælti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) notkun malaríubóluefnis hjá börnum í Afríku sunnan Sahara. Tveir þriðju barna í Ghana Kenya og Malaví voru bólusett og í kjölfarið fækkaði dauðsföllum af vödlum malaríu um 30%.

Bóluefnin fimm gegn COVID-19 sem leyfð eru til notkunar á EES svæðinu, eru mikilvægasta vörnin gegn alvarlegum sjúkdómi, sjúkrahúsinnlögn og dauða. Svæðisskrifstofa WHO í Evrópu og Evrópska sóttvarnastofnunin hafa áætluðu í lok árs 2021, að með notkun bóluefnanna hefði tekist að koma í veg fyrir andlát 470.000 manns 60 ára og eldri frá upphafi faraldursins.

Bóluefni gegn ebóla-vírusnum eru eitt af mikilvægari vísindaafrekum síðustu ára. Þau skipti sem faraldur hefur brotist út á undanförnum árum hafa frá 25 og upp í 90% þeirra sem sýktust látið lífið. Árið 2019 mælti EMA með markaðsleyfi fyrir bóluefni gegn ebólu á grunni rannsóknar þar sem í ljós kom að enginn sem fékk bóluefni hafði sýkst 10-31 degi eftir bólusetningu. Ári síðar hlaut annað bóluefni gegn hinum banvæna vírus meðmæli. Bóluefnin hafa nú þegar sannað gildi sitt þar sem faraldur hefur brotist út í Gíneu og Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó.

Fjöldi bólusettra skiptir máli

Þegar smitsjúkdómar eru annars vegar má segja að öryggi bóluefna byggi á því að meginþorri fólks á hverjum stað sé bólusettur til að hjarðónæmi náist. Þrátt fyrir sögulegar staðreyndir um hversu miklu bóluefni hafa breytt í góðs í heilbrigðismálum þriggja síðustu alda, hefur á síðari árum gengið yfir hafsjór rangra staðhæfinga og falsfrétta. Mikilvæg er að deila ekki því sem fram er sett opinberlega nema að vel athuguðu máli, að vísindalegir mælikvarðar liggi að baki.

Við getum treyst vísindum. Bóluefni eru mikilvæg sem vörn gegn alvarlegum smitsjúkdómum, segir Emer Cooke.

Grein Emer Cooke á vef EMA

Síðast uppfært: 4. maí 2022
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat