Fimmtungur íslenskra háskólanema virðist hafa notað ávísanaskyld lyf frá öðrum

Misnotkun ávana- og fíknilyfja hefur verið áberandi í umræðunni um all nokkurt skeið. Þar hefur athyglin fyrst og fremst beinst að ungu fólki en félagslegt samhengi hefur verið utan rammans. 

Víða um heim þekkist sú notkun háskólanema á ávísanaskyldum lyfjum að nýta sér þau til að komast í gegnum erfiða skafla í náminu. Upplýsingar um hversu algengt þetta er hér heima hafa ekki legið fyrir, en nýleg könnun sem unnin var sem verkefni í fréttamennsku og vefmiðlun við Háskóla Íslands gefur ákveðnar vísbendingar um stöðuna og viðhorf íslenskra stúdenta til lyfjanotkunar af þessu tagi.

Könnunin
Það var grein í Stúdentablaðinu í apríl 2016 ásamt starfinu hjá Lyfjastofnun sem varð hvati þess að Jana Rós Reynisdóttir valdi sér það verkefni að kanna með beinum hætti hvernig lyfjanotkun stúdenta væri háttað hérlendis, og flétta þannig saman nám og starf. Grein Stúdentablaðsins sem um ræðir heitir „Allir eru að taka þetta“ og fjallar einkum um notkun örvandi lyfja. Þar segir m.a. að notkun af þessu tagi hafi talsvert verið rannsökuð í Bandaríkjunum og margt bendi til að hlutfall slíkra notenda þar í landi sé á bilinu 5-34%. Í Skandinavíu hafa fjölmiðlar einnig fjallað um sambærileg mál þar sem m.a. hefur komið fram hve auðveldlega stúdentar geta orðið sér úti um ávísanaskyld lyf án þess að hafa leitað til læknis sjálfir.

Íslenska könnunin sem hér um ræðir var sett upp í Survey Monkey og send út í mars 2018 til rösklega 6.700 nemenda í grunnnámi við Háskóla Íslands. Auk þess var könnunin birt nemendum Háskólans á Akureyri í námskerfinu Uglu. Því má ætlað að hún gæti hafa komið fyrir augu hátt í níu þúsund háskólanema. Svörin sem bárust voru 1.145 talsins, að langstærstum hluta frá nemum við HÍ.  Könnunin sneri að lyfjanotkun stúdenta almennt en ekki bara að örvandi lyfjum.

Spurningar könnunarinnar
Auk spurninga um aldur, kyn og námsbraut, var m.a. spurt um vinnu með námi og utanaðkomandi þrýsting um frammistöðu. Kjarni könnunarinnar sneri síðan að lyfjanotkun. Hvort viðkomandi hefði notað ávísanaskyld lyf sem ekki var ávísað á hann sjálfan, í hvaða tilgangi, og hvaðan lyfin voru fengin. Ásamt könnuninni voru tekin viðtöl við nemendur og fleiri.

Fimmtungur notað lyf frá öðrum, þrír fjórðu heyrt af slíku
Ríflega fimmtungur svarenda, 20,14%, sagðist hafa notað ávísanaskyld lyf fengin með óhefðbundnum leiðum. Enn fleiri eða 76,35% sögust hafa heyrt að ávísanaskyld lyf væru notuð til að bæta námsárangur.

Þegar spurt var um ástæður sögðust hátt í 30% hafa notað lyf með þessum hætti til að auka einbeitingu og bæta námsárangur almennt, álíka margir tekið slík lyf í aðdraganda prófs, en rúm 20% í tengslum við skemmtanir. Aðrar skýringar voru kvíði, hjálp við að sofna, verkir.

Rétt er að ítreka að hér er ekki um rannsókn á vísindalegum grunni að ræða heldur könnun. Hún gæti þó gefið ákveðnar vísbendingar um notkun háskólanema á ávísanaskyldum lyfjum ætluðum öðrum, og viðhorf þeirra til slíks.

Frekari umfjöllun um könnunina má sjá á vef Lyfjastofnunar í eftirfarandi fréttum: 

Meira af lyfjanotkun háskólanema

Concerta til að draga úr svefnþörf fyrir próf

Síðast uppfært: 4. september 2018
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat