Heilbrigðisráðherra veitir apóteki styrk vegna tilraunaverkefnis

Verkefnið miðar að því að auka öryggi lyfjameðferðar og bæta meðferðarheldni sjúklinga.

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að veita Reykjanesapóteki styrk sem nemur þremur milljónum króna til þess að ráðast í tilraunaverkefni sem miðar að því að auka öryggi lyfjameðferðar og bæta meðferðarheldni sjúklinga.

Í frétt á vef Stjórnarráðsins kemur fram að verkefnið verði afmarkað við þá sem taka lyf við hjarta- og æðasjúkdómum á borð við blóðþynningarlyf, blóðþrýstings- og blóðfitulækkandi lyf og felst í skilgreindri umsjón lyfjafræðings sem veitir viðkomandi sjúklingi ráðgjöf og eftirfylgni á næstu vikum meðferðar.

Um er að ræða eftirmynd verkefna erlendis frá sem þekkjast undir heitinu „new medicine service“ og hefur verið þýtt sem „lyfjastoð“ á íslensku. Markmiðið er að draga úr rangri lyfjanotkun, tryggja öruggari innleiðingu meðferðar hjá sjúklingum, bæta lyfjaöryggi hjá þeim sem nota mörg lyf og auka öryggi lyfjanotkunar þegar um áhættusöm lyf er að ræða, t.d. blóðþynningarlyf.
Vonir eru bundnar við að verkefnið geti orðið fyrirmynd að aukinni lyfjafræðilegri þjónustu í apótekum í samræmi við lyfjastefnu segir á vef Stjórnarráðsins.

Samhliða ákvörðun um breytingu á smásöluálagningu lyfja lagði Lyfjastofnun nýverið til við heilbrigðisráðherra að útvegaðir yrðu styrkir til að treysta rekstrargrundvöll lyfjabúða á landsbyggðinni, sem og að lyfjabúðum verði greitt sérstaklega fyrir skilgreinda þætti lyfjafræðilegrar þjónustu sem lyfjafræðingar geta veitt í apótekum, t.d. ráðgjöf um notkun tiltekinna lyfja.

Síðast uppfært: 13. júní 2022
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat