Í kjölfar fjölmiðlaumræðu um mistök við lyfjagjöf

Í kjölfar fjölmiðlaumræðu á Vísi um mistök við lyfjagjöf þar sem barni var ávísað röngum skammti af ofnæmislyfi vill Lyfjastofnun koma eftirfarandi atriðum á framfæri.

Lesið allan fylgiseðilinn vandlega áður en byrjað er að nota lyfið

Í fylgiseðli eru mikilvægar upplýsingar um lyfið sem eru ætlaðar notanda þess. Sé lyfið ætlað börnum eða öðrum sem ekki geta sjálfir lagt mat á upplýsingarnar er sjálfgefið að foreldrar eða umönnunaraðilar kynni sér það sem fram kemur í fylgiseðlinum svo fyllsta öryggis við notkun lyfsins sé gætt. Mjög mikilvægt er að sá sem fær lyfið í hendur, hvort sem er til eigin nota eða handa t.d. barni fari mjög vandlega yfir upplýsingarnar í fylgiseðlinum og gangi úr skugga um að þar sé ekkert að finna sem kemur í veg fyrir að lyfið sé notað. Leiki minnsti vafi á skal hafa samband við lækni eða lyfjafræðing.

Fylgiseðill á íslensku er í pakkningum flestra lyfja. Útgáfudagsetningar er getið í fylgiseðlum og nýjustu útgáfu þeirra er alltaf að finna á www.serlyfjaskra.is

Sjá einnig: Hvaða upplýsingar eru í fylgiseðlum?

Atvikaskráning mikilvæg

Samkvæmt lyfjalöggjöfinni (eða reglugerð nr. 426/1997 um lyfsöluleyfi og lyfjabúðir) ber lyfjabúðum að færa atvikaskrá um mistök er verða við afgreiðslu lyfseðils eða afhendingu lyfja. Ef um alvarleg mistök er að ræða skal senda Lyfjastofnun afriti af atvikaskráningu, enda gera lyfjabúðir það.

Á síðasta ári bárust Lyfjastofnun alls 55 slík afrit. Rétt er að benda á að alls voru á sama ári afgreiddar 3.461.433 lyfjaávísanir í lyfjabúðum á Íslandi.

Meginmarkmið með þessari skráningu er að læra af mistökunum og reyna að koma í veg fyrir að þau endurtaki sig. Með því að skrá atvikið og senda Lyfjastofnun afrit fæst yfirsýn yfir það sem miður hefur farið, sem hjálpar til að leita leiða til úrbóta.   

Síðast uppfært: 18. maí 2017
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat