Hin hefðbundna afgreiðsla lyfja, þegar lyf eru afgreidd og afhend notanda eða umboðsmanni hans á staðnum, er vafalítið stærsti liðurinn í starfsemi apóteka. Á síðari árum hafa þó komið til skjalanna fleiri þættir í starfseminni sem snerta lyf og umsýslu þeirra.
Öryggi meginsjónarmið reglugerða um lyfjaskömmtun
Undir lok síðustu aldar var sett reglugerð, með stoð í lyfjalögum frá 1994, sem heimilaði almennum apótekum án sérstaks starfsleyfis, að sinna skömmtun í lyfjaöskjur fyrir einstaklinga. Megin sjónarmið reglugerðarinnar, sem og þeirrar sem síðar tók við, er öryggi. „Við skömmtun í skammtaöskjur skal fyllsta öryggis gætt, með það fyrir augum að komið sé í veg fyrir mistök.“ Reglugerðin kveður einnig á um að settar séu skýrar verklagsreglur og að til staðar sé gæðatrygging og heildstæð gæðahandbók um starfsemina. Á þessum verkferlum öllum bera lyfjafræðingar apótekanna ábyrgð. Það sem bættist við þá reglugerð sem nú gildir frá hinni upprunalegu, er heimild til vélskömmtunar lyfja. Til að geta sinnt vélskömmtun lyfja þarf að sækja um sérstakt framleiðsluleyfi. Í dag eru þrjú fyrirtæki sem hafa slíkt framleiðsluleyfi.
Lyfsöluleyfishöfum einum heimilt að starfrækja netapótek
Árið 2018 var lyfjalögunum frá 1994 breytt á þann veg að lyfsöluleyfishöfum var veitt heimild til að starfrækja netapótek að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Sambærilegt ákvæði er í nýjum lyfjalögum frá 2020. Skylt er að tilkynna Lyfjastofnun um starfrækslu netapóteks eigi síðar en á sama tíma og netverslun hefst. Enn fremur skal sameiginlegt kennimerki Evrópusambandsins vera sýnilegt á vefslóð netapóteksins, og skal það fela í sér tengil á vef Lyfjastofnunar, síðu um fjarsölu lyfja. Á þeirri síðu er að finna tæmandi lista yfir lögmætar netverslanir með lyf.
Takmarkanir á starfsemi netapóteka af öryggissjónarmiðum
Af öryggissjónarmiðum eru ýmsar takmarkanir á starfsemi netapóteka. Þeim er til að mynda ekki heimilt að afgreiða eftirritunarskyld lyf og þeim er skylt að tryggja að lyf séu afhend með ábyrgðarpósti svo öruggt sé að lyfið rati í hendur rétts viðtakanda. Þá ber lyfsöluleyfishafi ábyrgð á því að lyfjum sem seld eru í netsölu fylgi nauðsynlegar upplýsingar.
Sameiginlegt kennimerki netapóteka tryggir öryggi neytenda
Tilgangur með birtingu sameiginlega kennimerkisins er að gera neytendum kleift að ganga úr skugga um, að um sé að ræða apótek sem Lyfjastofnun hefur viðurkennt að megi bjóða lyf til kaups á internetinu. Sameiginlega kennimerkið aðstoðar þannig neytendur við að beina viðskiptum sínum til lögmætra verslana með lyf og fyrirbyggir að ólögleg og fölsuð lyf fari í dreifingu til almennings.
Netapótekum hefur fjölgað hratt í heimsfaraldri
Fyrsta netapótekið hlaut staðfestingu Lyfjastofnunar í júní 2019. Til að byrja með fjölgaði netapótekum hægt, en þegar heimsfaraldur COVID-19 skall á fyrri hluta árs 2020 bættust mörg við á skömmum tíma; þau eru nú 38 talsins.
Um afgreiðslu og afhendingu lyfja í póst- og netverslun gilda sömu reglur og um apótek almennt. Lyfjafræðingar hjá viðkomandi apóteki bera ábyrgð á að rétt sé að málum staðið.