Lyfjastofnun Evrópu birtir umsagnir um borgirnar sem sækjast eftir að fá stofnunina til sín

Lyfjastofnun Evrópu (EMA)
hefur birt mat og athugasemdir vegna umsókna um nýja staðsetningu
stofnunarinnar. Nítján borgir hafa sóst eftir að fá stofnunina til sín í
kjölfar útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, en 
EMA hefur verið í Lundúnum frá upphafi, árinu 1995. Ástæðan fyrir
birtingunni er sú að fjölmiðlar ytra höfðu komist yfir hluta gagnanna og fyrst
svo var skipti máli að koma á framfæri réttum upplýsingum.  

EMA hefur farið í
ítarlega greiningu á ýmsu því sem skiptir máli til að starfsemin gangi
snurðulaust eftir flutninginn, og þar með að tryggja megi sjúklingum í Evrópu
stöðugan aðgang að öruggum lyfjum sem uppfylla gæðakröfur.  

Matið byggir m.a. á
aðgengi að borginni sem verður valin. Góðar flugsamgöngur séu mikilvægar vegna
þess fjölda erlendra sérfræðinga sem sækja fundi hjá stofnuninni. Jafnframt skipti
máli fyrir starfsemi stofnunarinnar að meirihluti starfsfólksins sé reiðubúinn
að flytjast til þeirrar borgar sem verður fyrir valinu. Ekki sé síður mikilvægt
að byggingar og aðstaða á nýjum stað sé með þeim hætti sem styðji við starfsemi
stofnunarinnar.

EMA hefur þannig skipt
mati sínu á tilboðunum í tvennt. Annars vegar er um að ræða tæknilega greiningu
á  byggingunum sem í boði eru, mat lagt á
aðstöðuna, sem og áætlun um flutning stofnunarinnar. Hins vegar eru upplýsingar
um aðgengi svo sem flugsamgöngur eins og áður sagði, en einnig hvað varðar aðstöðu
fyrir starfsmenn EMA og fjölskyldur þeirra. Er þar meðal annars horft til skólamála
og atvinnumöguleika.

Þær borgir sem koma best
út í greiningu EMA eru Amsterdam, Barselóna, Brussel, Dublin, Kaupmannahöfn og
Mílanó.

Þær borgir sem síst
virðast koma til greina miðað við mat EMA eru Aþena, Bratislava, Búkarest,
Malta, Sofia, Varsjá og Zagreb.

Frétt EMA

Sjá einnig:

Lyfjastofnun Evrópu undirbýr sig fyrir útgöngu Breta úr
Evrópusambandinu og flutning í nýja borg
  

Síðast uppfært: 10. október 2017
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat