Niðurstöður nýrrar könnunar sýna að 90% Íslendinga upplifa gott aðgengi að apóteksþjónustu og um 4 af hverjum 5 eru ánægð með þjónustu og ráðgjöf. Um 67% svarenda sem höfðu keypt lyf í síðustu apóteksheimsókn fengu engar upplýsingar um lyfið.
Mjög gott aðgengi að þjónustu apóteka
Nær 90% aðspurðra sögðust upplifa mjög gott eða frekar gott aðgengi að þjónustu apóteka. Um 6% svarenda á landsbyggðinni segjast upplifa slæmt aðgengi en einungis 1% á höfuðborgarsvæðinu. Af þeim sem sögðust upplifa slæmt aðgengi að apóteksþjónustu vildu tveir þriðju fá lengri opnunartíma.
Engar upplýsingar veittar í 67% tilfella þegar lyf eru keypt
Þau sem keypt höfðu lyf, hvort heldur voru lausasölulyf eða lyfseðilsskyld lyf, voru spurð um ráðgjöf og samskipti við starfsfólk apóteksins. Oftast fylgdu engar upplýsingar lyfinu eða notkun þess, eða í 67% tilvika, 16% var boðið samheitalyf en fengu enga aðra ráðgjöf, og 17% fengu upplýsingar um lyfið eða ráðgjöf um notkun þess.
Þau sem boðið var samheitalyf og fengu auk þess ráðgjöf, flokkast með þeim sem fengu lyfjafræðilegar upplýsingar (innan 17% hlutans), sjá valmöguleika á mynd 2.
Þau sem keyptu lyfseðilsskylt lyf og/eða lausasölulyf voru spurð hvað af eftirfarandi átti sér stað þegar kaupin fóru fram. Af þeim sem fengu ráðgjöf var 9% ráðlagt hvernig ætti að taka lyfið, 6% að lesa fylgiseðil lyfsins, 4% hvað bæri að varast við notkun lyfsins, 2% fengu aðrar upplýsingar og 1% voru spurðir um einkenni eða notkun á öðrum lyfjum.
Mikil ánægja með ráðgjöf lyfjafræðinga þegar hún fór fram
Þegar spurt var að því hver titill starfsmannsins sem veitti ráðgjöfina kom í ljós að 36% vissu ekki titil starfsmannsins, 28% fengu ráðgjöf frá almennum starfsmanni, 27% frá lyfjafræðingi og 9% frá lyfjatækni. Um 75% fengu ráðgjöfina að fyrra bragði.
Menntaðir starfsmenn koma mun oftar að ráðgjöf lyfseðilsskyldra lyfja en lausasölulyfja.
33% þeirra sem keyptu lyfseðilsskyld lyf fengu ráðgjöf frá lyfjafræðingi og 11% frá lyfjatækni. Þeir sem keyptu lausasölulyf fengu í 17% tilfella ráðgjöf frá lyfjafræðingi og 6% tilfella frá lyfjatækni.
Ráðleggingar eru oftar veittar og eru víðtækari þegar um lausasölulyf er að ræða, en þau eru jafnan keypt án ávísunar læknis, þó það sé ekki algilt.
Ráðgjöf lyfjafræðinga er umfangsmeiri og snýr að fleiri atriðum en ráðgjöf annarra starfsmanna apóteka.
Mikill meirihluti ánægður með þjónustu í apótekum
Mikil ánægja mælist með upplifun af þjónustu apóteka í heild sinni en 80% eru ánægð eða mjög ánægð með upplifunina. Af þeim sem fengu ráðgjöf eru 44% aðspurðra mjög ánægð og 35% frekar ánægð, eða samtals 79%. Einungis 2% voru óánægð. Athygli vekur að aðspurðir eru miklu líklegri til að vera mjög ánægðir með ráðgjöf frá lyfjafræðingi, en 68% þeirra sem fengu ráðgjöf frá lyfjafræðingi voru mjög ánægð. Um þriðjungur þeirra sem fengu ráðgjöf frá lyfjatækni, almennum starfsmanni eða í þeim tilvikum sem titill starfsmanns var óþekktur, voru mjög ánægðir með ráðgjöfina.
Meira um fjarpantanir hjá þeim sem eldri eru og þeim sem búa á landsbyggðinni
Þegar spurt var um pöntun og móttöku lyfja sögðust 72% hafa pantað í apóteki, 6% pöntuðu í bílalúgu, 20% pöntuðu á netinu og sóttu í apótekið, en 2% pöntuðu á netinu og fengu lyfin send heim.
24% þeirra sem keyptu lyfseðilsskylt lyf nýttu sér netpöntun og sóttu í apótek, 11% þeirra sem keyptu lausasölulyf völdu sama afgreiðslumáta.
Líklegastir til að nýta sér fjarpantanir eru þeir sem eldri eru og þeir sem búa á landsbyggðinni.
Nánar um könnunina
Lyfjastofnun fól Gallup að kanna viðhorf landsmanna til aðgengis að apótekum og þeirri ráðgjöf sem veitt er í apótekum. Markmið könnunarinnar var að afla upplýsinga um þjónustu apóteka hérlendis. Það var gert með því að fá innsýn í viðhorf almennings til aðgengis að apóteksþjónustu og upplýsingar um umfang og viðhorf til ráðgjafar sem almenningi er veittur af starfsfólki apóteka.
Netkönnun var send út til viðhorfahóps Gallup dagana 13. janúar til 1. febrúar 2022. Úrtakið var 3.264 manns af öllu landinu, 18 ára og eldri, handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup. Fjöldi svarenda var 1.679 og þátttökuhlutfallið 51,4%.
Niðurstöður er ekki hægt að rekja til einstakra apóteka.