Ný lyf á markað í júlí 2023

Samantekt um ný lyf sem komu á markað 1. júlí 2023

Í júlí komu 8 lyf fyrir menn á íslenskan markað. Þau tilheyra 7 mismunandi ATC flokkum.

ATC flokkur A – meltingarfæri og efnaskipti

Esomeprazol Krka (Heilsa), magasýruþolið hart hylki

Lyfið fæst í einum styrkleika og inniheldur hvert hylki 20 mg af esomeprazoli sem magnesíumtvíhýdrat.

Esomeprazol Krka er ætlað fullorðnum og skal notast:

  • Við bakflæðissjúkdómi í vélinda
  • Með sýklalyfjum til upprætingar á Helicobacter pylori
  • Fyrir sjúklinga sem þurfa samfellda meðferð með bólgueyðandi gigtarlyfjum (NSAID)
  • Sem framhaldsmeðferð eftir innrennsli í æð til að koma í veg fyrir endurteknar blæðingar úr magasárum
  • Sem meðferð við Zollinger Ellison heilkenni

Einnig er það notað hjá unglingum 12 ára og eldri við bakflæðissjúkdómi í vélinda og í samsettri meðferð með sýklalyfjum til upprætingar á skeifugarnarsári af völdum Helicobacter pylori.

Lyfið er samhliða innflutt og fást 20 mg hylki í lausasölu í 28 stk pakkningum.

ATC flokkur G – Þvag – og kynfæri og kynhormón

Rewellfem, Leggangatafla

Hver tafla inniheldur estradíólhemíhýdrat sem samsvarar 10 míkrógrömmum af estradíóli.

Rewellfem er ætlað konum (með og án legs), til meðferðar við slímhúðarrýrnun í leggöngum vegna skorts á estrógeni eftir tíðahvörf.

Lyfið er samheitalyf Vagifem og er lyfseðilsskylt.

ATC flokkur H – Hormónalyf til altækrar notkunar (systemic use), önnur en kynhormón og insúlín

Ganirelix Geodeon Richter, stungulyf, lausn í áfylltri sprautu

Hver áfyllt sprauta inniheldur 0,25 mg af ganirelixi í 0,5 ml vatnlausn.

Ganirelix Geodeon Richter er ætlað konum sem gangast undir stýrða yfirörvun eggjastokka við tæknifrjóvgun og kemur í veg fyrir ótímabæra aukningu gulbúsörvandi hormóns (LH).

Lyfið er samheitalyf Orgalutran og ávísun þess er bundin sérfræðingum í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp auk sérfræðinga í innkirtlasjúkdómum.

ATC flokkur L – Æxlishemjandi lyf og lyf til ónæmistemprunar

Tecvayli, Stungulyf, lausn

Lyfið er fáanlegt í tveimur styrkleikum, 10 mg/ml og 90 mg/ml.

  • Tecvayli 10 mg/ml er 3 ml hettuglas sem inniheldur 30 mg af teclistamabi
  • Tecvayli 90 mg/ml er 1,7 ml hettuglas sem inniheldur 153 mg af teclistamabi

Lyfið er ætlað fullorðnum sem einlyfjameðferð við mergæxli sem er endurkomið eða svarar ekki meðferð og sem hefur fengið að minnsta kosti þrjár fyrri meðferðir, þ.á.m. með ónæmistemprandi lyfi, próteasómhemli og mótefni gegn CD38 og hafa sýnt versnun sjúkdómsins í síðustu meðferð.

Tecvayli er frumlyf og er lyfseðilsskylt.

Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi þess komist fljótt og örugglega til skila.

Zejula, filmuhúðuð tafla

Hver tafla inniheldur niraparib tosýlat einhýdrat sem jafngildir 100 mg af niraparibi.

Lyfið er ætlað:

  • Til einlyfjameðferðar sem viðhaldsmeðferð eftir lok fyrstavals krabbameinslyfjameðferðar með platínulyfi , hjá fullorðnum með langt gengið krabbamein á háu stigi í þekjuvef í eggjastokkum, í eggjaleiðurum eða frumkomið krabbamein í lífhimnu, sem höfðu svarað meðferð með platínulyfi.
  • Til einlyfjameðferðar sem viðhaldsmeðferð hjá fullorðnum sjúklingum með endurkomið platínunæmt krabbamein á háu stigi í þekjuvef/háluhimnum í eggjastokkum, í eggjaleiðurum eða frumkomið krabbamein í lífhimnu, sem hafa svarað krabbameinslyfjameðferð með platínulyfi.

Zejula er frumlyf, lyfseðilsskylt og er ávísun þess bundin sérfræðingum í krabbameinslækningum og kvensjúkdómum.

ATC flokkur N – Taugakerfi

Metadon 2care4, tafla

Metadon 2care4 er fáanlegt í 3 styrkleikum, 5 mg, 10 mg og 20 mg og inniheldur hver tafla samsvarandi magn af metadónhýdróklóríði.

Lyfið er ætlað fullorðnum sem einnkennameðferð við miklum langvinnum verkjum sem aðeins er hægt að hafa viðunandi stjórn á með ópíóíðverkjalyfjum.

5 mg og 10 mg töflurnar eru einnig notaðar sem einkennatengd viðhaldsmeðferð ópíóíðháðra sjúklinga samhliða læknis- og sálfræðimeðferð og félagslegri endurhæfingu.

Lyfið er lyfseðilsskylt. Metadon er eftirritunarskylt ávana og fíknilyf og er hámarksmagn sem má afgreiða sem svarar 30 daga skammti.

ATC flokkur R – Öndunarfæri

Livostin (Heilsa), Nefúði, dreifa

Hver úðaskammtur inniheldur 50 míkrógrömm af levokabastíni. Lyfið er notað við ofnæmisnefbólgu sem getur valdið nefstíflu, kláða og/eða nefrennsli. Livostin er notað við ofnæmi af völdum frjókorna eða annarra loftborinna ofnæmisvalda t.d. frá gæludýrum, ryki eða myglu/sveppagróum.

Lyfið er samhliða innflutt og fæst í lausasölu.

ATC flokkur S - Skynfæri

Vabysmo, Stungulyf, lausn

1 ml af lausninni inniheldur 120 mg af faricimabi.

Lyfið er ætlað fullorðnum til meðferðar við:

  • Nýæðamyndandi aldurstengdri augnbotnahrörnun
  • Sjónskerðingu vegna sjóndepilsbjúgs af völdum sykursýki

Vabysmo er frumlyf, er lyfseðilskylt og eingöngu ætlað til notkunar á heilbrigðisstofnunum þar sem fyrir hendi er nauðsynleg þekking, aðstaða og búnaður sem eru forsenda fyrir notkun lyfsins.

Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi þess komist fljótt og örugglega til skila.

Yfirlit

Ný lyf á markað 1. júlí 2023

LyfjaheitiLyfjaformStyrkleikiMagnÁvana og fíknilyf
Esomeprazol Krka (Heilsa)Magasýruþolið hart hylki20 mg28 stkNei
Ganirelix Gedeon RichterStungulyf, lausn í áfylltri sprautu0,25 mg0,5 mlNei
Livostin (Heilsa)Nefúði, dreifa20 míkróg/ skammt15 mlNei
Metadon 2care4Tafla5, 10 og 20 mg100 stk
RewellfemLeggangatafla10 míkróg18 stkNei
TecvayliStungulyf, lausn10 og 90 mg/ml3 og 1,7 mlNei
VabysmoStungulyf, lausn120 mg/ml0,24 mlNei
ZejulaFilmuhúðuð tafla100 mg56 stkNei

Frekari upplýsingar um hvert lyf má lesa í lista um ný lyf til birtingar í júlí. Hafa ber í huga að listinn er birtur með fyrirvara um breytingar.

Síðast uppfært: 17. júlí 2023
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat