Ný lyf á markað í mars 2023

Samantekt um ný lyf sem komu á markað 1. mars 2023

Ný lyf á markað í mars 2023

Ný lyf fyrir menn

Alprolix, stungulyfsstofn og leysir, lausn. Lyfið fæst í fimm styrkleikum; 250 a.e., 500 a.e., 1000 a.e., 2000 a.e. og 3000 a.e. Hvert hettuglas inniheldur samsvarandi skammt af storkuþætti manna IX (rDNA), eftrenonacog alfa. Alprolix inniheldur u.þ.b. samsvarandi skammt af storkuþætti manna IX (rDNA), eftrenonacog alfa, eftir blöndun. Lyfið er notað til að meðhöndla og fyrirbyggja blæðingu hjá sjúklingum með dreyrasýki B (meðfæddur skortur á þætti IX). Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í blóðsjúkdómum. Alprolix er frumlyf og er ávísun þess bundin við sérfræðinga í blóðsjúkdómum.

Lacosamide Accord, filmhúðuð tafla. Lyfið fæst í fjórum styrkleikum; 50 mg, 100 mg, 150 mg og 200 mg, og inniheldur hver tafla samsvarandi magn af lacosamíði. Lyfið er ætlað sem einlyfjameðferð í meðhöndlun á hlutaflogum (partial-onset) með eða án alfloga (secondary generalisation) hjá fullorðnum, unglingum og börnum frá 4 ára aldri með flogaveiki. Lyfið er einnig ætlað sem viðbótarmeðferð í meðhöndlun á hlutaflogum með eða án alfloga hjá fullorðnum, unglingum og börnum frá 4 ára aldri með flogaveiki og í meðhöndlun á frumkomnum þankippaflogum (primary generalised tonic-clonic seizures) hjá fullorðnum, unglingum og börnum frá 4 ára aldri með sjálfvakta flogaveiki. Lacosamide Accord er samheitalyf Vimpat og er lyfseðilsskylt.

Sitagliptin Teva, filmhúðuð tafla. Lyfið fæst í þremur styrkleikum; 25 mg, 50 mg og 100 mg. Hver tafla inniheldur samsvarandi magn af sitagliptíni. Lyfinu er ætlað að bæta stjórnun á blóðsykri hjá fullorðnum sjúklingum með sykursýki af tegund 2 einu og sér eða sem hluti af meðferð með öðrum blóðsykurslækkandi lyfjum ásamt mataræðis- og líkamsþjálfun. Sitagliptin Teva er samheitalyf Januvia og er lyfseðilsskylt.

XELJANZ, mixtúra, lausn. Hver ml af mixtúru inniheldur tofacitinibsítrat sem samsvarar 1 mg af tofacitinibi. Tofacitinib er ætlað til meðferðar við virkri sjálfvakinni barnafjölliðagigt og barnasóragigt hjá 2 ára og eldri sem eru með ófullnægjandi svörun við fyrri meðferð með sjúkdómstemprandi gigtarlyfjum. Xeljanz er notað eitt og sér eða með metótrexati. Lyfið er frumlyf og er ávísun þess bundin við sérfræðinga í gigtarlækningum, meltingarlækningum og ónæmisfræði.

Ný lyf undir sérstöku eftirliti

Ákveðin lyf eru auðkennd með ▼. Viðkomandi lyf eru undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi þess komist fljótt og örugglega til skila.

Jivi, stungulyfsstofn, lausn. Lyfið fæst í fjórum styrkleikum; 500 a.e./2.5 ml, 1000 a.e./2,5 ml, 2000 a.e./2,5 ml og 3000 a.e./2,5 ml. Eftir blöndun með meðfylgjandi leysi inniheldur hvert 2,5 ml glas samsvarandi magn af manna storkuþætti VIII, damoktókóg alfa pegól. Lyfið er ætlað sem meðferð og fyrirbyggjandi meðferð við blæðingum hjá sjúklingum 12 ára og eldri með dreyrasýki A (meðfæddan skort á storkuþætti VIII) sem þegar hafa fengið meðferð. Jivi er merkt með ▼, er frumlyf og er ávísun þess bundin við sérfræðinga í blóðsjúkdómum.

VidPrevtyn Beta, Lausn og fleyti fyrir stungulyf, fleyti. Hver 0,5 ml skammtur af lyfinu inniheldur 5 míkróg af SARS-CoV-2 gaddapróteini (B.1.351 stofn). Lyfið er ætlað sem örvunarskammtur til virkrar bólusetningar til þess að fyrirbyggja COVID-19 hjá fullorðnum sem hafa fengið mRNA eða adenóveiru-ferju COVID-19 bóluefni. VidPrevtyn Beta er merkt með ▼, er frumlyf og er það lyfseðilsskylt.

Yuflyma, stungulyf, lausn í áfylltum lyfjapenna. Hver 0,4 ml skammtur í áfylltri sprautu inniheldur 40 mg af adalimumabi. Yuflyma er ætlað til meðferðar á Iktsýki, áslægum hryggbólgusjúkdómi, sóraliðabólgu og sóra hjá fullorðnum. Einnig er Yuflyma ávísað við graftarmyndandi svitakirtlabólgu hjá fullorðnum og unglingum frá 12 ára aldri. Fyrir börn eru Yuflima notað við sjálfvakinni fjölliðagigt og skellusóra. Lyfinu er einnig ávísað við Crohns-sjúdómi, sáraristilsbólgu og æðahjúpsbólgu hjá börnum og fullorðnum. Yuflyma er ýmist notað eitt og sér eða ásamt öðru lyfi. Yuflima er merkt með ▼, er líftæknilyfshliðstæða og er ávísun þess bundin við sérfræðinga í gigtarlækningum, húðsjúkdómum, meltingarsjúkdómum, gigtarsjúkdómum barna, ónæmisfræði og augnlækningum.

Ný lyf fyrir dýr

Alpha Ject micro 5, stungulyf, fleyti. Lyfið fæst í 250 ml og 500 ml. Hver 0,05 ml skammtur inniheldur formaldehýð óvirkjaðar ræktanir af: Aeromonas salmonicida undirflokkur salmonicida; ≥ 12,6 log2 ELISA einingar, Vibrio anguillarum sermisgerð O1; RPS ≥ 75, Vibrio anguillarum sermisgerð O2a; RPS ≥ 75, Vibrio salmonicida; RPS ≥ 90 og Moritella viscosa; ≥ 10,7 log2 ELISA einingar. Lyfið er notað sem virk ónæmisaðgerð á atlantshafslaxi til að draga úr klínískum einkennum og dauða vegna sýkinga af völdum kýlaveiki, hitraveiki, vibríuveiki og vetrarsára. Ónæmi myndast eftir 520 gráðudaga frá bólusetningu og endist í að lágmarki í 12 mánuði. Alpha Ject micro 5 er lyfseðilsskylt.

Síðast uppfært: 10. mars 2023
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat